Hversu langt ætli sé í það að Inga Sæland dragi í land varðandi áherzlu Flokks flokksins á strandveiðar og lýsi því yfir að hún treysti Daða Má Kristóferssyni, fjármálaráðherra og varaformanni Viðreisnar, fullkomlega í þeim efnum? Eins og varðandi fyrirhugaða sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka sem flokkurinn lagðist alfarið gegn áður en hann varð aðili að ríkisstjórn. Varla mjög langt miðað við framgöngu hennar til þessa þar sem hverju ófrávíkjanlega málinu á fætur öðru hefur verið fórnað.
Vægast sagt afar skiptar skoðanir eru um strandveiðarnar og sýnist eðlilega sitt hverjum í þeim efnum. Hvað sem því líður hefur Flokkur fólksins lagt ríka áherzlu á málið á liðnum árum og hefur til dæmis Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra ítrekað tínt þær til sem réttlætingu á þeim algera viðsnúningi sem orðið hefur hjá flokknum í ófáum málum frá kosningunum sem áður kom ekki í orði kveðnu til greina að hverfa frá. Það breyttist hratt þegar flokkurinn var kominn í ríkisstjórn.
Flokkur fólksins hefur til að mynda þegar gefið upp á bátinn stærsta stefnumál sitt um lágmarksframfærslu upp á 450 þúsund krónur á mánuði skattlaust sem Inga sagði fyrir kosningar skilyrði fyrir þátttöku í ríkisstjórn enda hefði hann beinlínis verið stofnaður um það. Hið sama á við um andstöðu flokksins við inngöngu í Evrópusambandið sem og andstöðu hans við samþykkt bókunar 35 við EES-samninginn sem Inga og fleiri í forystusveit flokksins bentu réttilega á að færi gegn stjórnarskránni.
Daði ritaði ásamt fjórum öðrum hagfræðingum grein árið 2021 í ritið Regional Studies in Marine Science þar sem fram kemur sú niðurstaða þeirra að strandveiðarnar væru „ekki efnahagslega skynsamlegar“ þar sem mun hagkvæmara væri að veiða aflann með skipum innan aflamarkskerfisins. Megnið af aflanum í strandveiðunum væri auk þess þorskur sem væri enn hagkvæmara að veiða í aflamarkskerfinu en flestar aðrar tegundir. Strandveiðar væru þess vegna „efnahagsleg sóun.“
Hjörtur J. Guðmundsson er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur