Þrjú tilboð bárust í rekstur Breiðafjarðarferjunnar Baldurs árin 2025-2028 en tilboð vou opnuð 3. desember 2024. Lægsta tilboðið var frá Ferjuleiðum ehf í Reykjavík 1.750.615.265 kr. sem er 91,8% af áætluðum verktakakostnaði. Næstlægsta tilboðið var frá Sjótækni ehf á Tálknafirði og var það örlitlu hærra eða 1.795.748.700 kr. Það er 94,2% af áætluðum verktakakostnaði. Hæsta tilboðið barst frá Sæferðum ehf., Stykkishólmi og nam það 2.050.132.500 kr. eða 7,5% yfir áætluðum verktakakostnaði.
Vegagerðin tilkynnti þann 20. desember 2024 að lægsta tilboði hafi verið valið.
Í svari frá Vegagerðinni við fyrirspurn Bæjarins besta kemur fram að ekki hafi verið unnt að ganga til samninga um tilboðið þar sem kæra barst innan lögboðins biðtíma um val á tilboði. Gerð samnings er því ekki heimil þar til kærunefnd útboðsmála hefur leyst úr kærunni skv. 1 mgr. 107. gr. laga um opinber innkaup.
Kærandinn var Sjótækni ehf og lýtur kæran að því að lægstbjóðandi hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðslýsingar.
Samningur Vegagerðarinnar við Sæferðir gildir til 30.04.2025.