Tímabundin nýtingarleyfi á auðlindum

Fyrir rúmu ári kynnti þáverandi matvælaráðherra í samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi um lagareldi. Þar var lagt til að innleiða í fiskeldið sama kerfi og gildir í fiskveiðum um ótímabundna framseljanlega kvóta og því bætt við að þeir yrðu veðsetjanlegir. Bæjarins besta vakti fyrstur fjölmiðla athygli á þessu.

Síðar lagði ráðherrann svo fram frumvap á Alþingi með þessum ákvæðum. Í fiskeldinu hefur verið það fyrirkomulag að veita leyfi til eldis til 16 ára í senn.

Þá fór eins og við mátti búast. Almenn andstaða reis í þjóðfélaginu gegn þessum fyrirætlunum og þáverandi stjórnarflokkar voru fljótir að draga í land og ráðherrann lýsti því yfir að frá þessu yrði fallið og leyfin yrðu tímabundin eins og verið hefur. Reyndin varð svo sú að frumvarpið dagaði uppi og var ekki lagt fram aftur.

Nú hafa orðið veðrabrigði í þessum efnum. Ný ríkisstjórn hyggst taka upp tímabundna leyfisveitingar til nýtingar á auðlindum. Í stað þess að útvíkka kvótakerfið í fiskveiðum yfir í fiskeldið er ætlunin að breyta kvótakerfinu í fiskveiðum í átt til þess sem er í fiskeldinu a.m.k. hvað varðar leyfistímann. Segja má að fyrirkomulagið í fiskeldinu sé að vísa veginn til þess sem ríkisstjórnin stefnir að. Auðlindagjaldið er verður innheimt verður notað til afmarkaðra verkefna í samgöngumálum. Það nálgast verulega ráðstöfun fiskeldisgjaldisins en þriðjungur þess rennur til fiskeldissveitarfélaga. Væntanlega er hugsað til jarðgangaframkvæmda á landsbyggðinni. Með öðrum orðum auðlindagjaldið er nýtt heima í héraði sem tekjustofn í uppbyggingu innviða. Í fiskeldinu er nýtingin bundin við tiltekin svæði og ekki hægt að framselja nýtingarréttinn yfir á önnur svæði í fjarlægum landshlutum.

Það á svo eftir að koma í ljós hvernig nákvæmlega útfærslan verður og rétt með að bíða með álit á því þar til hún liggur fyrir, en það er skynsamleg stefna að afnema ótímabundna leyfiveitingu og taka upp tímabundna. Það er líka skynsamlegt að nýta auðlindina þar sem hún er og það er meira en sanngjarnt að tekjurnar verði til þess að styrkja viðkomandi landsvæði.

Helsta afleiðingin af því að afnema ótímabundna úthlutun er að verðið fyrir nýtinguna lækkar, hversu mikið ræðst svo af því hver leyfistiminn verður. Það er i sjálfu sér ekki slæm breyting, jafnvel þvert á móti. Samhliða afnámi eilífðarúthlutunar fiskveiðikvóta þarf að setja í lög ákvæði um dreifingu teknanna og nýtingu auðlindarinnar. Fiskimiðin fyrir Vestfjörðum eiga að vera til styrktar byggð á Vestfjörðum rétt eins og fiskeldið í fjörðunum. Það er löngu kominn tími til þess að leiðrétta áratuga gamalt ranglæti framsalsins í kvótakerfinu.

-k

DEILA