Mikil breytinga hefur orðið á eiginfjárstöðu Þórsberg ehf á Tálknafirði síðustu 10 árin. Fyrirtækið seldi á dögunum allan sinn kvóta fyrir 7,5 milljarða króna til Útgerðarfélags Reykjavíkur og miðað við efnahagsreikning 31.12. 2023 verður skuldlaus eign fyrirtækisins um 6,6 milljarðar króna að sölunni yfirstaðinni.
Þann 31. ágúst 2013 var eigið fé fyrirtækisins neikvætt um 546 m.kr. en í lok árs 2023 var það jákvætt um 2.950 m.kr. Staðan batnaði um 3,5 milljarða króna á einum áratug og reyndar enn meira sé tekið mið af því að söluverð aflaheimildanna er 3.368 m.kr. hærra en bókfært verð þeirra.
Við athugun á ársreikningum Þórsbergs sést að stærstur hlutinn af batnandi efnahag skýrist með verðhækkun á aflaheimildum á þessum tíma. En einnig skiptir máli að sum árin var góður hagnaður af rekstri, eignir voru seldar og tvisvar var hlutafé aukið og það greitt að mestu með veiðiheimildum.
Á árinu 2014 eru veiðiheimildir endurmetnar um 1.321 m.kr. sem tvöfaldar bókfært verðmæti þeirra. Við þá færslu eykst eigið fé. Það fór úr því að vera neikvætt um 546 m. kr. í það að vera jákvætt um 684 m.kr. Ári seinna lækkar það í 608 m.kr.
Á árinu 2015 og 2016 verða verulegar breytingar. Fiskvinnslu er hætt og bátur og kvóti í aflamarkskerfinu seldur. Í staðinn er keyptur kvóti og bátur í smábátakerfinu og stærstu eigendurnir leggja inn í Þórsberg útgerð krókaaflamarksbáts, Bergdís ehf. Verulegur hagnaður var af sölu kvótans, um 853 m.kr. og eigið fé Þórsbergs var í lok árs 2016 orðið 1.554 m.kr. og hækkaði um 900 m.kr. milli ára. Þá eru bókfærðar 762 m.kr. í veiðiheimildum sem koma til af samruna. Í félaginu Bergdísi eru hins vegar veiðiheimildir skráðar á 294 m.kr. Þarna munar 468 m.kr. sem er líklega verðhækkun veiðiheimilda.
Næst verða verulegar breytingar á árinu 2020 þegar Brim hf verður hluthafi í Þórsberg. Við það er selt nýtt hlutafé fyrir um 600 m.kr. og greitt með félaginu Grábrók, sem verður dótturfyrirtæki Þórsbergs.
Í næsta ársreikningi 2021 eru færða 468 m.kr. sem hækkun á verði veiðiheimilda og skýrt sem endurmat á veiðiheimildum dótturfyrirtækja. Loks má sjá að í síðasta ársreikningi sem er fyrir 2023 eru færðar 236 m.kr. vegna endurmats veiðiheimilda.
Samandregið þá virðast um 2,5 milljarðar króna af um 3,5 milljarða króna viðsnúningi á eiginfjárstöðu fyrirtækisins vera tilkomnar vegna endurmats eða verðhækkunar á veiðiheimildum, sem væntanlega endurspeglar verðþróunina síðasta áratuginn.
Salan á kvótanum til Útgerðarfélags Reykjavíkur bæti liðlega 3 milljörðum króna við, þar sem verðið á kvótanum er því sem nemur hærra en bókfærða verðið á veiðheimildunum.
Þróun sem ekki er lokið
Þetta eru miklar verðhækkanir á kvóta á aðeins einum áratug. Það væri skammsýni að ætla að þessari þróun sé lokið. Öðru nær sagan síðustu 30 árin hefur sýnt að verðið á veiðiheimildum heldur bara áfram að hækka. Fyrir 30 árum kom það mönnum í opna skjöldu að greitt var fyrir kvóta í Bolungavík meira en 100 kr. pr.kg af þorski. Það hafði verið talið óhugsandi. Nú eru greiddar um 5.000 kr. fyrir kg og það í krókaaflamarkskerfinu, sem er nokkuð ódýrara en í aflamarkskerfinu.
Það eru mikil verðmæti fólgin í veiðiréttinum. Það er líka rétt að árétta að það er vegna þess að dugmiklir útgerðarmenn standa að fyrirtækjunum og standa sig vel.
En það eru fleiri sem eiga mikilla hagsmuna að gæta. Í laxeldinu hafa stjónvöld viðurkennt rétt byggðarlaganna til nýtingar auðlindarinnar og arðs af starfseminni. Það sama á auðvitað við í fiskveiðunum. Byggðarlögin eiga skilyrðislausan rétt til nýtingar á fiskimiðunum og drjúgan skerf af því sem greitt er fyrir veiðiréttinn.
Vestfirðingar eiga mikið undir því að í þessum efnum verði umtalsverð viðhorfsbreyting.
Blómstrandi byggð blasir við á Vestfjörðum ef rétt er á málum haldið.
-k