Þórsberg Tálknafirði selur kvótann fyrir 7,5 milljarða króna

Bátur Þórsbergs er línubáturinn Indriði Kristins BA. Mynd: Þórsberg.

Útgerðafélag Reykjavíkur hf. (ÚR) hefur gert samkomulag við Þórsberg ehf. um kaup ÚR á allri krókaaflahlutdeild og krókaaflamarki fiskveiðiársins 2024/2025 af Þórsbergi ehf á Tálknafirði.

Umsamið kaupverð viðskiptanna er 7.500.000.000 kr.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Útgerðarfélaginu í Reykjavík sem dagsett er 27. desember 2024.

Fram kemur í ársreikningi Þórsbergs ehf fyrir 2023 að aflaheimildir fyrirtækisins í lok ársins voru 1.477 þorskígildi sem eru á Indriða Kristins BA 751.

Á vef Fiskistofu kemur fram að úthlutaðar veiðiheimildir á Indriða Kristins BA nú eru 1.499 þorskígildi. Auk þess eru 92 þorskígildi í sérstakri úthlutun.

Aflaheimildirnar voru bókfærðar á 4.132 m.kr. í lok ársins 2023.

Umsamið verð fyrir aflaheimildirnar er 82% hærra en bókfært verð aflaheimilda fyrirtækisins í lok árs 2023 eða 3.368 m.kr. hærra.

Sé söluverðið 7,5 milljarður króna deilt niður á 1.499 þorskígildi fæst að greitt er 5 m.kr. að jafnaði fyrir hvert tonn eða 5.000 kr. fyrir hvert kg.

Bókfært verð hvers tonns er 2,75 m.kr. þannig að söluverðið er 2,25 m.kr. hærra fyrir hvert tonn en bókfærða verðið var í lok árs 2023.

Aðrar eignir Þórsbergs ehf eru færðar á 550 m.kr. í lok árs 2023 og eru ekki hluti af söluverðinu.

Eigið fé Þórsbergs ehf voru 3 milljarðar króna í lok árs 2023, það eru eignir umfram skuldir. Við það bætist að veiðiheimildir seljast á 3.368 m.kr. hærra verði en það sem bókfært var.

Sjö hluthafar eru í Þórsberg ehf. Brim hf er þeirra stærstur og á 40,8%. Litli vinur ehf á 39% hlutafjár en það á Guðjón Indriðason framkvæmdastjóri Þórsbergs að fullu. Eigið fé þess fyrirtækis er rúmur milljarður króna. Guðjón Indriðason á auk þess sjálfur 4% og fjögur Guðjónsbörn eiga samtals 12% hlutafjár.

DEILA