Svæðisskipulag Vestfjarða í mótun

Frá því er greint á vefsíðu Vestfjarðastofu að í lok desember voru gefin út frumdrög Svæðisskipulags Vestfjarða 2025-2050 sem lýsa niðurstöðu samráðs við íbúa og aðra aðila sem fram fór á fyrri hluta síðasta árs. Þar segir að „ljóst er að trú íbúa og sveitarfélaga er að vöxtur samfélaga og atvinnulífs á Vestfjörðum á síðustu árum muni halda áfram með fjölgun íbúa, eflingu innviða og öflugra atvinnulífi.“

Svæðisskipulag Vestfjarða verður fyrsta heildstæða skipulagsáætlunin um þróun samfélags á Vestfjörðum og að því standa öll sveitarfélögin á Vestfjörðum í gegnum Fjórðungssamband Vestfirðinga. Það er VSÓ ráðgjöf og Úrbana skipulagsráðgjöf sem sjá um gerð Svæðisskipulags Vestfjarða fyrir Fjórðungssambandið og svæðisskipulagsnefnd Vestfjarða.

Við gerð frummatsins var ákveðið að vinna með ólíka valkosti samfélagsþróunar næstu 25 árin, byggða á spám um mannfjöldaþróun. Í frumdrögunum er að finna umfjöllun um þær framtíðarmyndir sem lagðar voru til grundvallar í skipulagsvinnunni. Þær voru upphaflega fimm og vísaði heiti þeirra til veðrabrigða: mótvindur, andvari, meðbyr, gustur og ofsi. Þessar framtíðarmyndir voru svo speglaðar við sviðsmyndir sem voru unnar fyrir Vestfirði, „Vestfirðir á krossgötum“ og við lýðfræðilega þróun samfélaga á Íslandi og Norðurlöndum.

íbúar verði 10.000 árið 2050

Meðbyr þótti líklegastur til að raungerast og spá um mannfjöldaþróun verði hin sama og á landsvísu og gerir m.a. ráð fyrir að íbúum hafi fjölgað um 38% árið 2050 og verði þá um 10.000. Það sem íbúar vildu helst sjá rætast var gustur, en hann kveður m.a. á um íbúafjölgun um 2,5% ár hvert sem er umfram mannfjöldaspá á landsvísu. Með þessa niðurstöðu voru framtíðarmyndirnar mótvindur og ofsi teknar út og unnið áfram með andvara, meðvind og gust.

Sveitarstjórnarfólk á 69. Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var í Bjarnafirði sl. haust, kaus um andvara, meðbyr og gust til að verða viðmið við mótun svæðisskipulagsins. Óhætt er að segja að kosningin hafi verið æsispennandi. Andvari komst ekki á blað, en meðbyr sigraði með 51% greiddra atkvæða og gustur kom fast á hæla hans með 49%.

Frumdrög svæðisskipulags Vestfjarða 2025-2050 má nálgast hér. Frumdrögin munu nú leggja línurnar hver verða næstu skref í mótun svæðisskipulagsins og hvernig á að útfæra stefnumótun í samræmi við framtíðarsýn og lykilatriði frumdraganna. 

DEILA