Þorgeir Pálsson, sveitarstjóri í Strandabyggð segir í áramótapistli sem hann birtir á vefsíðu sveitarféagsins að á síðasta ári hafi samhliða endurgerð aðalskipulags verið unnið deiliskipulag að svokölluðum hótelreit og næsta nágrennis við Íþróttamiðstöðina og félagsheimilið. Deiliskipulagið og hóteláformin fara í kynningu á fyrstu vikum næsta árs.
Endurbygging grunnskólans
Fyrsta málið sem Þorgeir nefnir er endurbygging Grunnskólans á Hólmavík eftr að upp kom myngla í húsnæðinu. Á árinu var Grunnskólann opnaður að nýju, eftir tveggja ára framkvæmdir. Kostnaður helypur á hundruðum milljóna króna. „Mikil ánægja er með hvernig til tókst og nú eru allir undir sama þaki í nútímalegu skólaumhverfi. Þetta var risavaxið verkefni sem við sem samfélag fengum í fangið í lok nóvember 2022, en með samstöðu allra og áræðni sveitarstjórnar, tókst að opna yngri hluta grunnskólans við upphaf skólaárs nú í ágúst. Ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdir við eldri hlutann hefjast.“
Réttarsmíði lokið
Á haustdögum reis ný rétt í Kollafirði, í landi Litla Fjarðarhorns. Þar með er lokið réttarsmíði í Strandabyggð og hefur núverandi sveitarstjórn þar með staðið fyrir smíði þriggja rétta það sem af er kjörtímabilinu; í Staðardal, Bitrufirði og nú síðast í Kollafirði.
Raðhús á Hólmavík
Nýtt fjögurra íbúða raðhús, er nú risið á Hólmavík. Það er Brák íbúðafélag sem stendur að byggingunni, en Strandabyggð leggur til lóð undir húsið og greiðir stofnframlag. Húsið rís á lóðinni sem áður hýsti Lillaróló, og verður hann því endurgerður á nýjum stað, við ærslabelginn hjá félagsheimilinu.
Nýtt húsnæði Björgunarsveitarinnar
Nýtt hús Björgunarsveitarinnar Dagrenningar, er nú risið á Skeiðinu og er hið mesta prýði að sögn Þorgeirs. Húsið gerbreytir aðstöðu björgunarsveitarinnar og skapaði um leið nýtt tækifæri, með sölu á gamla húsinu, eins og fram hefur komið. Sveitarfélagið studdi við þessa uppbyggingu með beinum hætti.
Fiskvinnsla og aukin útgerð á Hólmavík
Þá nefnir Þorgeir að ný fyrirtæki í veiðum og vinnslu (Vilji fiskverkun ehf.) tóku til starfa á árinu, í tengslum við úthlutun á 500 tonna sértækum byggðakvóta Byggðastofnunar til Strandabyggðar, fyrst á vordögum og síðan aftur og árlega næstu ár. „Sveitarstjórn beitti sér fyrir því, með aðstoð þingmanna kjördæmisins, að hingað kæmi sértækur byggðakvóti. Það voru síðan dugmiklir útgerðaraðilar á Hólmavík sem koma saman að veiðum og vinnslu á þessum sértæka byggðakvóta. Þessi nýja staða í sjávarútvegi í Strandabyggð skiptir gríðarlega mikli máli fyrir samfélagið, atvinnu- og verðmætasköpun þess.“
Margt fleira nefnir Þorgeir Pálsson í pistlinum um framfaramál í sveitarfélaginu.