Fram kemur í skýrslu lögreglunnar á Vestfjörðum um verkefni síðustu viku að tilkynnt var um þrjú umferðaróhöpp. Engin hlaut líkamlegan skaða af þeim. Eitt þeirra var í jarðgöngunum undir Breiðadals-og Botnsheiði þann 7 janúar, annað var í Djúpafirði í Reykhólasveit og það þriðja varð á Barðastrandavegi rétt vestan við Moshlíðará.
Þá var ökumaður staðinn að akstri, án ökuréttinda á Patreksfirði. En hann hafði áður verið sviptur ökuréttindum.
Lögreglumenn á Ísafirði hafa af og til haft afskipti af nokkrum ungum ökumönnum sem hafa gert sér að leik að spóla og skrensa bifreiðum sínum á hafnarsvæðinu sem og á bílaplönum. Þetta athæfi samrýmist ekki umferðarlögum, segir lögreglan, og er auk þess afar hættulegt. Foreldrar ungra ökumanna eru hvattir til þess að ræða hættuna sem af þessu getur skapast.
slæm veðurspá um helgina
Í gærkvöldi varaði lögreglan við slæmri veðurspá næstu sólahringa. Búist var við vaxandi vindi í gærkvöld, í nótt og hríðarveðri í dag. Einnig er gert ráð fyrir hvassvirðri á sunnudag og fram á mánudag en minni úrkomu, skv. núgildandi veðurspám.