Skemmtiferðakip: engar afbókanir á Ísafirði

Skemmtiferðaskip við Sundabakka. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Hilmar Lyngmó, hafnarstjóri segir að engar afbókanir hafi borist enn frá skemmtiferðaskipum sem hafa boðað komu sína í sumar. Hann segist telja að skipafélögin fylgist með áformum nýrrar ríkisstjórnar og bíði átekta. Um áramótin tók gildi nýtt gjald á ferðamenn með skemmtiferðaskipum, svonefnd innviðagjald, sem er 2.500 kr. á hvern farþega fyrir hvern sólarhring sem skip er á ferð um landið. Hilmar sagði að fyrir stórt skemmtiferðaskip væri gjaldið um 55 m.kr. fyrir hverja ferð um landið og skip sem kemur átta sinnum yfir sumarið væri þetta 440 m.kr. útgjöld fyrir skipafélögin. Farþegarnir hafa þegar greitt ferðina og verður því skipafélagið að greiða gjaldið.

Samtök hagsmunaaðila Cruise Iceland mótmæltu lagasetningunni og fóru fram á að gjaldið yrði innheimt í áföngum en ekki varð orðið við því við afgreiðslu fjárlaga 2025.

Á Akureyri segir Pétur Ólafsson hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands að skipakomum muni fækka um 44 í Eyjafjörð eða um 17%. Eins hefur orðið vart við afbókanir á Grundarfirði, Vestmannaeyjum og hjá Faxaflóahöfnum.

Alls komu 186  skemmtiferðaskip til Ísafjarðarhafna í fyrra, allar til Ísafjaðar en þó þrjár til Þingeyrar. Farþegafjöldinn sem skemmtiferðaskipin báru var tæplega 235 þúsund manns og tekjur hafnarsjóðs af þessari starfsemi námu um það bil 756 milljónum króna. 

DEILA