Sjávarútvegsklasi Vestfjarða úthlutar styrkjum 

Stóri mjóni er langvaxinn og grannvaxinn fiskur

Sjávarútvegsklasi Vestfjarða í gegnum Hafsjó af hugmyndum hefur úthlutað styrkjum að heildarupphæð 2.8 milljón króna til verkefna sex háskólanema.

Þetta er í fimmta sinn sem styrkjum er úthlutað og það er alltaf spennandi að sjá umsóknirnar sem berast og hversu fjölbreytt verkefnin eru. Ný tækifæri, vistfræði, umhverfisáhrif og tækninýjungar er meginþemað í ár og áhugavert að sjá hvernig þau þróast. Verkefnin að þessu sinni eru unnin í samstarfi við Rannsóknarsetur HÍ í Bolungavík, Hafró, HG, Háskólasetur Vestfjarða og Háskólann á Akureyri.

Verðmætasköpun í laxi er viðfang Dags Benediktssonar við Háskólann á Akureyri og ætlar hann að skoða hver áhrif aukinnar vinnslu á hagnað og atvinnu á Vestfjörðum gætu orðið.

Michelle Valliant við Háskóla Íslands skoðar hvað áhrif af mannavöldum hafa á hegðun þorsks.

Uppsöfnun á þungmálmum í einni tegund er viðfangsefni Sydney Bateman við Háskólasetur Vestfjarða, en í verkefni hans verður uppsöfnun þungmálma mæld í steinkrabba, sem er talin framandi, ágeng tegund við strendur Íslands.

Stærð og kynþroski sex tegunda mjóna verður skoðað af Alexis Bradley við Háskólasetur Vestfjarða. Mjóni er tegund sem ekki er nytjafiskur en mikilvægt er að rannsaka fleiri tegundir en nytjategundir í vistfræðilegum rannsóknum.

Asit Y Rahman við Háskólasetur Vestfjarða ætlar að vinna sína rannsókn í samstarfi við björgunarsveitirnar til að greina segulmerki í fjörðunum við Ísafjarðardjúp.

Benedek Regoczi við Háskólasetur Vestfjarða fékk styrk fyrir verkefni sem snýr að því að byggja brú á milli rannsókna á hvölum í Ísafjarðardjúpi og samfélagsins með útgáfu fræðsluefnis.

DEILA