Sigríður Júlía : hvernig var fyrsta vikan í starfi?

Sigríður Júlía flytur ávarp í gær þegar tilkynnt var um val á íþróttamanni ársins 2024. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir tók við starfi bæjastjóra í síðustu viku. Bæjarins besta innti hana eftir því hvernig fyrsta vikan hefði verið. Eftirfarandi svar barst:

Mín fyrsta vika í starfi byrjaði eins og ég bjóst við, vel!

Að taka til starfa á nýjum vinnustað á þriðjudegi gætu margir litið á sem áskorun en mér finnst það bara fínt, segir kannski að ég er ekki mjög hjátrúafull.  Fyrstu klukkutímarnir fóru í setja upp ýmislegt í tölvunni og þá tók við fundur með sviðsstjórum, mannauðsstjóra, fjármálastjóra og upplýsingafulltrúa. Ég hitti Jón Pál bæjarstjóra í Bolungarvík og Braga sveitarstjóra í Súðavík á stjórnarfundi Byggðasafnsins en Jóna Símonía forstöðumaður bauð okkur til fundar í Faktorshúsi og hún klikkaði ekki á veitingunum hún Jóna. Á þessu kjörtímabili hefur verið unnið að því að selja ýmsar húseignir og skrifaði ég undir minn fyrsta kaupsamning f.h. bæjarins í vikunni. Ég er búin að setja mér það markmið að heimsækja allar stofnanir bæjarins sem fyrst og það er svona verið að púsla því saman. Fór í heimsókn á hafnarskrifstofuna ásamt Tinnu upplýsingafulltrúa, þar var Jóna Símonía mætt, með köku, jú föstudagsmorgun var sérstaklega valinn í þessa heimsókn. Ég fór yfir bókanir bæjarráðs síðustu mánuði til að ná utan um verkefnin mín og er því komin með langan verkefnalista, sem ég reikna með að muni bætast á, jafnt og þétt, en það er gaman. Ég þrífst best ef ég hef nóg að gera.

Ég kíkti uppá Seljalandsdal á laugardaginn en þar fór fram bikarmót í skíðagöngu um helgina en þrátt fyrir hlýindi var hægt að halda mótið. Í dag var sannkölluð uppskeruhátíð íþróttahreyfingarinnar þegar Dagur Benediktsson skíðagöngumaður var útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2024 við glæsilega athöfn á Logni, þá var efnilegasti íþróttamaðurinn útnefndur en hann er Eyþór Freyr Árnason skíðagöngumaður. Meistaraflokkur kvenna knattspyrnudeildar Vestra hlaut hvatningarverðlaun en þær hafa staðið sig frábærlega og eru miklar fyrirmyndir. Þá vil ég þakka sérstaklega fyrir glæsilegt kökuhlaðborð sem stelpurnar sáu um við þessa athöfn.

Við eigum að vera stolt af íþróttafólkinu okkar og öllum þeim sjálfboðaliðum sem koma að því fjölbreytta og glæsilega íþróttastarfi sem hér fer fram. Ég þreytist ekki á að nefna að besta forvörnin er þátttaka í uppbyggjandi frístundastarfi og þar eru íþróttir stór þáttur. Foreldrar og forráðamenn unga fólksins okkar eiga einnig hrós skilið fyrir að stuðla að íþróttaiðkun og styðja unga fólkið okkar.

Í lokin langar mig til að segja frá því að ég fór nokkrum sinnum í sund í vikunni, mér finnst það svo hressandi en þar hittir maður allskonar fólk, spjall um daginn og veginn, slökun í pottinum eða synda, allt alveg frábært. Ég heyrði einhversstaðar sagt að sundlaugar á Íslandi væru okkar torg samanber torg á hlýrri stöðum erlendis, mér finnst það góð samlíking. Því langar mig til að minna íbúa á sundlaugarnar okkar, og hvet fólk til að skella sér í sund!

DEILA