Samanburður á orkukostnaði heimila árið 2024

Líkt og undanfarin ár hefur Byggðastofnun fengið Orkustofnun til að reikna út árlegan kostnað við raforkunotkun og húshitun á sömu fasteigninni á flestum þéttbýlisstöðum og í dreifbýli.

Viðmiðunareignin er einbýlishús, 140 m² að grunnfleti og 350m³. Almenn raforkunotkun er sú raforka sem er notuð í annað en að hita upp húsnæði, s.s. ljós og heimilistæki, en miðað er við 4.500 kWst í almennri rafmagnsnotkun og 28.400 kWst við húshitun án varmadælu en 14.200 kWst með varmadælu.

Lægsta mögulega raforkuverð fyrir viðmiðunareignina, með flutnings- og dreifingarkostnaði, fæst hjá Veitum á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi, um 99 þ.kr. 

Hæsta gjald í skilgreindu þéttbýli er um 119 þ.kr. hjá Orkubúi Vestfjarða en raforkuverð eru hærri í dreifbýli, hjá RARIK og Orkubúi Vestfjarða, eða um 136-141 þ.kr. á ári fyrir viðmiðunareign.

Bilið milli raforkuverðs í þéttbýli og dreifbýli minnkaði mikið árið 2021 vegna aukins dreifbýlisframlags en árið 2024 jókst það aftur nokkuð. Árið 2024 hækkaði raforkuverð fyrir viðmiðunareign í þéttbýli um 4,5-7,8%, nema hjá HS Veitum þar sem raforkuverð lækkaði um 2,5%. Í dreifbýli hækkaði raforkuverð viðmiðunareignar hins vegar meira, eða um 7,7% hjá RARIK og 14,9% hjá Orkubúi Vestfjarða.

Þegar kemur að húshitunarkostnaði er munurinn á milli svæða mun meiri en á raforkuverði. Lægsti mögulegi kostnaður þar sem húshitun er dýrust er um þrefalt hærri en þar sem hún er ódýrust. Húshitunarkostnaður var fram til ársins 2021 hæstur á stöðum þar sem þarf að notast við beina rafhitun. Lægsta verð fyrir húshitun með rafmagni hefur þó lækkað talsvert síðustu ár, m.a. vegna niðurgreiðslna á dreifi- og flutningskostnaði. Sú þróun hefur gert það að verkum að lægsti mögulegi kostnaður fyrir beina rafhitun er nú orðinn lægri en þar sem eru dýrar hitaveitur.

Lægsti húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign er í Brautarholti á Skeiðum 75 þ.kr. og á Flúðum um 83 þ.kr. Hæsti húshitunarkostnaðurinn er í Grímsey um 281 þ.kr., þar sem er olíukynding. Þar fyrir utan er húshitunarkostnaður fyrir viðmiðunareign hæstur 252 þ.kr. á Grenivík og 243 þ.kr. á Höfn og í Nesjahverfi í Hornafirði.


Heildarorkukostnaður, þ.e.a.s. raforku- og húshitunarkostnaður viðmiðunareignar, er hæstur í Grímsey 427 þ.kr. þar sem rafmagn er framleitt með díselrafstöð og húsin kynt með olíu. Þar fyrir utan er heildarkostnaður hæstur í Nesjahverfi í Hornafirði 378 þ.kr. og á Grenivík 364 þ.kr. Þar næst koma staðir með rafhitun sem skilgreinast jafnframt sem dreifbýli hvað raforkudreifingu varðar, þ.e. Súðavík, Bakkafjörður og Borgarfjörður eystri. Lægsti heildarorkukostnaður landsins er á Flúðum 195 þ.kr. en þar næst í Laugarási 200 þ.kr.

DEILA