Ríkisstjórnin boðar til samráðs við þjóðina

Eitt af forgangsverkefnum nýrrar ríkisstjórnar er að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir, eins og fram kemur í stefuyfirlýsingu stjórnarinnar.

Ríkisstjórnin boðar í því skyni til samráðs við þjóðina undir yfirskriftinni Verum hagsýn í rekstri ríkisins.

Almenningur, fyrirtæki og hagsmunaaðilar geta sent inn tillögur, hugmyndir og sjónarmið um hvernig hægt er að hagræða í rekstri ríkisins. Einnig verður kallað sérstaklega eftir upplýsingum og ábendingum frá ríkisstofnunum.

Opið verður fyrir innsendingar í Samráðsgátt til 23. janúar og í kjölfarið mun starfshópur á vegum forsætisráðuneytisins fara yfir allar ábendingar sem berast. Niðurstöður vinnunnar verða nýttar við að móta áætlun til lengri tíma um umbætur í rekstri ríkisins.

Engin mörk eru sett á lengd umsagna en þess er óskað að þær séu settar fram með skýrum hætti. Tillögur og hugmyndir geta bæði varðað hagræðingu til skemmri tíma og lengri. Til glöggvunar eru hér nokkur atriði sem hafa má í huga:

  • Hvar og hvernig má hagræða í rekstri ríkisins?
  • Myndum við verja opinberu fé í sömu verkefni og með sama hætti ef við værum að byrja frá grunni?
  • Hvar má stokka upp eða breyta forgangsröðun?
  • Eru dæmi um sóun hjá hinu opinbera sem auðvelt væri að taka á?
DEILA