Reykhólar: mesta uppbygging í áratugi

Ingibjörg Bina Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Reykhólahreppi.

„Árið 2024 stóð heldur betur uppúr hjá Reykhólahreppi.  Byggðar voru 13 íbúðir á Reykhólum, þar af 3 raðhús og 1 einbýli, önnur eins uppbygging hefur ekki átt sér stað síðustu áratugi.  Mikil eftirspurn hefur verið eftir leiguhúsnæði í sveitarfélaginu síðastliðin ár og munu íbúðirnar koma til með að mæta þeirri þörf.“

Þetta segir Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri í Reykhólahreppi aðspurð um hvað hafi staðið upp úr á síðasta ári.

Endurbygging hafnarinnar

„Endurbygging og stækkun Reykhólahafnar var að mestu kláruð á árinu, mikil bót fyrir Reykhólahrepp þar sem hugað var að því að mæta framtíðinni með stærð og orkuskiptum skipa og báta í huga. Verkefnið bætir einnig allt öryggi vegna starfsemi Þörungaverksmiðjunnar á höfninni sem er helsti notanda hafnarinnar.“

Þá nefnir Ingibjörg að í nóvember opnaði langþráð verslun á Reykhólum og líkamsræktarstöðin Grettir sterki fékk andlitslyftingu og ný tæki í samstarfi með Ungmennafélaginu Aftureldingu. „Þá hefur Vegagerðin unnið að því að ljúka við veglagningu á Vestfjarðarvegi 60 og taka úr notkun tvær einbreiðar brýr í sveitarfélaginu. Mikil uppbygging átti sér stað í Þörungamiðstöð Íslands, þar sem búnaður til ýmissa rannsókna var settur upp í húsnæði félagsins.  Í Flatey hefur Orkubú Vestfjarða unnið að uppbyggingu húsnæðis vegna raforkunýtingar í eyjunni.

Utan þess hefur lífið gengið sinn gang, Guðmundur á Grund hélt uppá 70 ára afmælið með stæl og Árný Huld Haraldsdóttir var kjörin íbúi ársins.“

Nýtt þéttbýli í Króksfjarðarnesi

Ingibjög var innt eftir því hvernig nýja árið legðist í hana og hvað helst væi framundan.

„Árið 2025 leggst reglulega vel í mig.  Það stendur ýmislegt til.  Klára byggingu íbúða og koma þeim í leigu. Uppbygging hringrásarsamfélagsins í Reykhólahreppi heldur áfram, unnið verður að aðalskipulags- og deiliskipulagsbreytingum í tengslum við hana.  Nýtt þéttbýli á Króksfjarðarnesi, stækkun hafnarsvæðis í Karley vegna fyrirhugaðra stækkunar á fyrirtækjum sem þar hafa aðsetur og mögulega tilkomu nýrra fyrirtækja. Þá stendur til að klára byggingu tveggja íbúða í Barmahlíð, breyta hluta heimavistar í Reykhólaskóla í félagsmiðstöð, setja upp gufubað í Grettislaug, leggja ljósleiðara í þorpið og halda áfram að éta upp viðhaldsskuld sveitarfélagsins gagnvart eigin fasteignum. Þá mun verkefnið Brothættar byggðir fara af stað með nýjum verkefnastjóra.

Það er nóg um að vera og mikið umstang í kringum allar þessar framkvæmdir og margt ótalið.“

DEILA