”Nýársmorgunn, nýr og fagur,
á næturhimni kviknar dagur.
Nýársmorgunn, þegar örlög sín enginn veit
– allt er á byrjunarreit.” (Bragi Valdimar Skúlason)
Við gleðjumst yfir því sem nýtt er og það fangar huga okkar þar sem við handleikum það, varlega í upphafi, og veltum fyrir okkur notagildinu, möguleikunum og tækifærunum sem í því búa. Það er nýtt -ónotað með öllu og hefur því ekki orðið fyrir neinu hnjaski. Það sér ekkert á því og við gleðjumst þó við vitum mæta vel að það kunni að breytast. Rétt eins og ný bók ber þess merki að hafa verið lesin og því oftar sem hún er lesin því meir sér á henni. Enginn höfundur myndi gráta það að sjá verk sitt snjáð, með asnaeyru á síðum og kannski smá súkkulaðikámi á spássíum -því það var jú tilgangur verksins að þess væri notið. -Eins er með lífið og höfund þess.
”Á hverri árs- og ævitíð
er allt að breytast fyrr og síð.” (Valdimar Briem Sb. 2022 sl. 75)
Við gleðjumst yfir því sem nýtt er og vonumst eftir breytingum, setjum okkur jákvæð markmið í upphafi nýs árs til þess að bæta og betra líf okkar og jafnvel annarra í kjölfarið. Í nótt þegar raketturnar sprungu með látum og litadýrð yfir höfðum okkar leituðu kannski spurningar á hugann varðandi árið sem hefur kvatt og ekki síst árið sem nú er gengið í garð. Hvaða breytingar ber það í skauti sér? Hvernig varði ég tíma mínum og hvernig ætla ég að verja honum í ár? Hvað er mér mikilvægast? Ætti ég að taka mig í gegn -fara fyrr að sofa, hreyfa mig meira, kaupa mér árskort í ræktina, hætta að borða óhollt og flytja í Hálsaskóg? Skipuleggja tíma minn betur, forgangsraða uppá nýtt, útdeila dýrmætum tíma mínum skynsamlega og hanga á hurðarhún Bókhlöðunnar í fyrramálið, 2. janúar, til að kaupa skipulags-og markmiðsdagbók fyrir árið 2025.
Breytingar til hins betra eru af hinu góðar, en þær eiga það sameiginlegt með breytingum til hins verra að gera kröfur sem okkur gengur misvel að uppfylla. Grundvallarmunurinn á þeim er sá að hinar góðu veljum við sjálf og reynum að hrinda í framkvæmd, en hinar verri velur sér enginn – að minnsta kosti ekki viljandi og þeim verðum við að lúta. Að tileinka sér breytingar til hins betra tekur tíma og þolinmæði -og já sjálfsskilning. Það er nefnilega svo gott að hverfa aftur í það sem maður kann og þekkir. Svolítið eins og þegar nýja sálmabókin kom út árið 2022 og ég af ómældri gleði hlóð henni í skottið á bílnum í Reykjavík og flutti vestur, bar kassana inn í kirkju, pakkaði gömlu bókunum niður og dröslaði niður í kjallara. Upp í hillu skyldu þær nýju og teknar í notkun fyrsta sunnudag í aðventu -áramótum kirkjuársins. Eins gerði ég heima í gleðivímunni. Sú gamla fór upp í hillu með hinum fornbókunum og sú nýja tók hennar stað á skrifborðinu. Það var varla liðin vika þegar ég var búin að ýta nýju fínu sálmabókinni til hliðar og sækja þá gömlu og setja á sinn stað. Nýja sálmabókin var samtímis dásamleg og ómöguleg, á meðan að sú gamla var þægileg, kunnugleg og mér handgengin. Þar var „Heims um ból“ númer 82 eins og það hafði verið í meira en heila öld en ekki númer 35 eins og í nýju bókinni, sem krafðist alltof mikillar fyrirhafnar og vinnu í notkun -miðað við þá gömlu. Í dag liggja þær hlið við hlið á skrifborðinu, kemur ágætlega saman, og smátt og smátt tileinka ég mér þá nýju. Það mun taka tíma sinn að læra um það bil 800 sálmanúmer upp á nýtt. Góðum breytingum þarf að gefa tíma og sjálfum sér færi á að aðlagast þeim. Það er ekkert langt síðan ég áttaði mig á því að það tók mig rúmlega 30 ára notkun á gömlu bókinni að verða eins handgengin henni og raun ber vitni -svo ég verð að gefa sjálfri mér og nýju sálmabókinni sama tíma svo hún verði mér þægileg, kunnugleg og handgengin.
„Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast vitur hjarta.“ (Davíðssálmur 90, vers 12)
Við gleðjumst því nýtt ár er hafið og því fylgir nægur tími eins og sjá má af auðum síðum dagbókarinnar, sem við tókum í notkun í dag. 364 heilir dagar til stefnu -en er ekki full snemmt að byrja að telja dagana? Sálmaskáldið góða var ekki að vísa í slíka talningu og þá skipulagningu tímans sem dagbækur nýtast til. Þar sem hverri klukkustund er ráðstafað til að komast yfir þau verkefni sem þarf að inna af hendi. Sálmaskáldið veit að tími okkar er, eins og við vitum, takmörkum háður og því mikilvægt að verja honum vel og skynsamlega. Skáldið er að hvetja okkur til að staldra aðeins við, dvelja í augnablikinu og nota hvern dag vel. Svo að hverjum degi loknum getum við talið hann góðan, betri eða bestan – lagt á hann mat, séð hve dýrmætur hver dagur er.
Á nýju ári er gott að setja sér það markmið -að læra að meta daga sína- og lifa hvern dag þannig að hann verði að góðum gærdegi og morgundagurinn að tilhlökkunarefni. Dagurinn í dag, meðan hann er yfirstandandi, er sá dagur sem öll máli skiptir. Hann felur allan veruleika lífsins í sér og sannleika tilveru okkar. Í honum býr kærleikur, vöxtur og gróska, tækifæri til skapandi verka og kraftur, því gærdagurinn dýrmæt minning og morgundagurinn nýtt fyrirheit Guðs, höfundar lífsins, um vonarríka framtíð.
Guð gefi ykkur gleðiríkt nýtt ár, góða nýja daga og vonarrík fyrirheit.
Sr. Hildur Inga Rúnarsdóttir
Sóknarprestur í Ísafjarðarprestakalli.