Fram kemur í nýbirtri skýrslu Náttúrustofu Vestfjarða um vöktun sjávalúsa á villtum laxfiskum á Vestfjörðum 2024 að minnst var af lús í Jökulfjörðum. Veiddir voru fiskar á sex svæðum og voru tvö þeirra í Jökulfjörðum, í Veiðileysufirði og í Leirufirði. Hinir veiðistaðirnir voru í Kaldalóni í Ísafjaðardjúpi, Patreksfirði, Tálknafirði og Trostansfirði í Arnarfirði. Veitt var bæði í júlí og ágúst. Fæstar lýs pr. fisk voru báða mánuðina í Jökulfjörðum.
Í skýrslunni segir að vísbendingar séu að vatnshiti sé sterkur drifkraftur fyrir magn sjávarlúsa á villtum laxfiskum, þar sem fylgni er á milli hærra hitastigs í sjó og aukins fjölda smita. Sjávarhiti reyndist lægstur í Jökulfjörðum en hæstur á sunnanverðum Vestfjörðum. Lægra hitastig og færri lúsasmit fari því saman.
Niðurstaðan er að áhættan af laxalús á þessum stöðum sé lítil sem engin eins og sjá má af meðfylgjandi mynd:
VL er Veiðileysufjörður. þa veiddur 28 fiskar i ágúst, allt bleikjur og áhættustig er 0. LEI er Leirufjörður, þar veiddust 14 fiskar í júlí og áhættustig er mjög lágt.
Skýrslan frá 2021- lægri hiti og selta
Þessi niðurstaða er í samræmi við vöktunarskýrslu 2021 fyrir Jökulfirði sem kom út í desember 2022. þá veiddust 49 bleikjur í Leirufirði og fundust fáar laxalýs á þeim. „Áhætta sem laxfiskar voru í vegna laxalúsar og er mæld með dánartíðni í laxfiskahópum var 0% og fær grænan lit, sem þýðir engin áhætta.“
Þá segir að áhrif af eldi regnbogasilungs í Ísafjarðardjúpi virðist ekki ná til sjóbleikja í Leirufirði.
Í skýrslunni er vitnað til gagna norsku lúsavöktunaráætlunarinnar og þar komi fram að umhverfisaðstæður eins og hita- og seltustig hafi áhrif á afkomu laxalúsa. Það er lægra seltustig sjávar geri lúsinni erfiðara fyrir sem og lægra hitastig.
Í skýrslunni segir að „Laxalýs virðast ekki vera vandamál á villtum laxfiskum í Leirufirði samkvæmt þessari rannsókn og mögulega er orsökin að einhverjum hluta tengd seltustigi en það mældist lágt á fyrra tímabilinu.“
Er ekki rétt að skoða Jökulfirði frekar?
Þessar upplýsingar vekja þá spurningu hvort ekki sé rétt að athuga sérstaklega frekar skilyrði til laxeldis í Jökulfjörðum. Lægra hitastig og minna seltumagn benda til þess að lúsaálag sé minna þar en annars staðar á Vestfjörðum. Það er eitt og sér ekki nægjanlegt til þess að meta aðstæður heildstætt, en þegar haft er í huga að í Jökulfjörðum finnst aðeins bleikja, en hvorki lax né sjóbirtingur er full ástæða til þess að kanna frekar aðstæður,svo sem strauma, fyrir laxeldi í sjókvíum í Jökulfjörðum.
-k