Valkyrjurnar auglýsa nú eftir tillögum frá almenningi til sparnaðar í ríkisrekstri. Það er gott og vel að hann skuli hafður með í ráðum sem bendir til að nú eigi að hafa hag heildarinnar að leiðarljósi.
Mér sýnist hins vegar á þeim tillögum sem nefndar hafa verið að menn séu að vaða flórinn í leit að spörðum.
Ég hef lengi verið gagnrýnin á alla þá verktakaþjónustu sem ríkið er að kaupa þar sem ég efast um að hún feli í sér sparnað.
Við viljum flest að ríkið veiti og standi vörð um alla grunnþjónustu svo sem heilbrigðis og félagsþjónustu og greiðan aðgang fyrir alla að menntastofnunum og að viðhaldi á gatnakerfi landsins sé treystandi ekki síst þar sem um langan veg er að fara eftir bjargráðum.
En það sem við teljum til grunnþjónustu kallar frjálshyggjan gjarnan bákn og bendir á að ríkið eigi ekki að standa í atvinnurekstri í samkeppni við einkaframtakið.
Frjálshyggjan sem lengst af hefur haldið um stjórnartaumana hér á landi hefur því í gegnum tíðina verið að innleiða verktakaþjónustu undir því yfirskini að minnka ríkisbáknið og spara fé.
En góðir hálsar ríkið borgar hvernig svo sem fyrirkomulaginu er háttað. Í gegnum verktakana má ætla að kostnaðurinn verði meiri því þeir eru ekkert annað en milliliðir – oft fokdýrir milliliðir sem geta rústað heilu atvinnugreinunum eins og við höfum orðið vitni af í landbúnði og fundið fyrir í matarinnkaupum.
Ef við skoðum heilbrigðiskerfið sem sennilega er að jafnaði er dýrasti þátturinn í ríkisrekstrinum þá má finna verktöku þar víða. Þvottur, þrif og eldhús eru í verktöku á Landspítalanum sem og á heilbrigðisstofnunum út á landi. Það hefur aldrei verið sýnt fram á að í þessu felist sparnaður – ríkið greiðir launin eftir sem áður en nú í gegnum verktaka sem skammta sér svo þóknun fyrir vikið að geðþótta.
Svo er það læknastéttin sem hefur í vaxandi mæli farið út í verktöku – sérfræðilæknar vinna þá sem verktakar inn á stofnunum samkvæmt eigin töxtum. Eins og kom fram í Kveik fyrir nokkrum árum þá voru sérfræðilæknar í verktöku að rukka Sjúkratryggingar Íslands um 700.000 kr á dag að meðaltali.
Spurning hvort núverandi heilbrigðisráðherra og fyrrverandi landlæknir muni sjá ástæðu til að rýna í þetta í þágu þjóðarhagsmuna og þá einnig að skoða ríkisstyrktan einkarekstur í heilbrigðisþjónustu eins og til dæmis hjúkrunarheimilin.
Það kom fram í fréttum um svipað leiti og áður nefndur þáttur var á dagskrá að hver vistmaður kostaði um tvær milljónir á mánuði – það gera um 70.000 kr á dag. Og hverjir haldið þið svo að borgi þetta aðrir en skattgreiðendur í gegnum verktöku sem í þessu tilfelli kallast ríkisstyrktur einkarekstur – auk þess að greiða fyrir viðhald á húsakosti.
Spurning hvort við höfum efni á að reka heilbrigðisþjónustu upp á þessi bítti.
Ég veit ekki hvernig fyrirkomulagið er í skólum landsins er varðar verktöku en mig grunar að eldhúsin hjá þeim séu á höndu verktaka og þá kannski ekki alltaf með sparnaðarsjónarmið í huga.
Fyrir margt löngu þegar verktakaþjónusta var að byrja að hreiðra um sig í öllum kimum þjóðfélagsins þá var til umræðu að bjóða út eldhús Grunnskólans á Ísafirði og til stóð að taka tilboði frá verktaka í Reykjavík og fljúga með matinn vestur daglega með áætlunarflugi. Þetta var svo galin hugmynd og svo gjörsamlega óframkvæmanleg og svo augljóst að í þessu væri enginn sparnaður – því er freistandi að ætla að þarna hafi átt að hygla einhverjum besta vini aðal á kostnað almannahagsmuna eins og svo oft hefur viljað til í okkar einkavinafrændhyglisþjóðfélagi allar götur.
Lengi vel hélt ég að ekkert gæti toppað sérfræðilækna í þessu efnum eða þar til að kostnaðurinn við varnargarðana við Grindavík fór að opinberast landslýð – en síðustu fréttir herma að hann sé komin yfir átta milljarða.
Ætla má að þarna sé verið að rukka vel ríflega ef hlutirnir eru skoðaðir með jarðgangnagerð til hliðsjónar. Það hefur tekið um 2-3 ár að bora göng hér á landi með flóknum og dýrum tækjabúnaði og hálfu fjöllunum hefur verið ekið á brott til uppfyllingar annars staðar og efniskostnaður af ýmsum toga verið mikill – ekkert af þessu er hins vegar til að dreifa þegar kemur að gerð varnargarðanna við Grindavík – öll efnistaka á staðnum frí – svo þessir átta milljarðar eru þá að mestu launakostnaður – dælubúnaður sem fengin var til að kæla niður hraunið getur ekki spilað stóra rullu í þessu dæmi.
Eitt vitum við fyrir víst að hér er allt í hönk og að misskipting lífsgæða hefur sjaldan eða aldrei verið meiri – við vitum minna um raunverulegar ástæður en okkur grunar þó sterklega að rótgróin sérhagsmunaspillingin eigi stóru sökina í félagi við vilhöll og meðvirk stjórnvöld.
Það er auðveldara að innleiða ólög heldur en að afnema þau – það hefur íslensk sjávarútvegsstefna sannað fyrir okkur.
Þegar núverandi sjávarútvegsstefna var í smíðum var okkur sem höfðum sitthvað við hana að athuga sagt að fleira væri til en fiskarnir í sjónum – 40 árum seinna birtist svo auglýsing frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi í Ríkissjónvarpinu nú rétt fyrir jólin þar sem landanum er gerð grein fyrir mikilvægi sjávarútvegs fyrir íslenskt samfélag og þar var fullyrt að fiskurinn væri allt og í öllu nema derhúfu.
Ísland var byggt upp fyrir arðinn af sjávarauðlindinni en eftir að stefnan í sjávarútvegsmálum var sérsniðin að óskum fárra útvalinna þá hafa ekki verið til peningar til að viðhalda því sem áður hafði verið áorkað. Arðbærar eigur ríkisins hafa því verið seldar til að fjármagna framkvæmdir – í sumum tilfellum þeim sem sem fengu arðbærustu auðlind þjóðarinnar upp í hendurnar á silfurfati.
Það þarf ekki grjótharða skynsemi til að sjá að þetta er algert flopp – dæmi sem einfaldlega mun aldrei ríkja sátt um.
Nei, frjálshyggjan gengur ekki upp – hún gengur út á frelsi fárra til að mergsjúga fjöldann – oftar en ekki í skjóli meðvirkra stjórnvalda – sem gjarnan loka augunum fyrir valdníðslu og kúgun sem fylgir auðvaldinu eins og skugginn.
Einkavæðingin eru ær og kýr frjálshyggjunar – sem grefur undan öllu sem hún kemur nálægt – í krafti auð síns tekur hún sér völd yfir almenningi um leið og hún hefur sig yfir lög og reglur samfélagsins með þeim afleiðingum að almennt siðferði þynnist út og þá um leið virðing og samkennd.
Það verða til tvær þjóðir í landinu – önnur sem nýtur forréttinda og hin sem á í auðmýkt og nægjusemi að þjóna.
Það er sannarlega virðingarvert af nýrri ríkisstjórn að opna faðm sinn fyrir fólkinu í landinu og bjóða því til skrafs og ráðagerða því til hagsbóta – það er að segja ef meiningin er sönn og upp borin af heilum hug.
Ég reynsluboltinn með mínar efasemdir hef láti mér detta í hug að aðeins sé verið að kanna hvar þolmörk þjóðarinnar liggi sem og siðferðisvitund og þá hversu langt enn megi ganga gagnvart henni.
Í raun er almenningur hér á landi svo til réttlaus og því varnarlaus gagnvart yfirgangi þeirra sem telja forréttindi sín sjálfsögð.
Að svipta fólk rétti sínu í einu og öllu er niðurbrot og þegar niðurbrot hefur átt sér stað er oft stutt í ofbeldi sem gripið er til þegar ekki er hlustað – bara endalaust troðið á sjálfsvirðingu manna og rétti.
Það er ekki ósjaldan sem fréttir berast af voðaverkum framin af örvæntingafullu fólki og jafnvel börnum. Við lítum svo á að þarna séu afar sjúkir einstaklingar á ferð sem eflaust er rétt – en við hugsum minna um hvað hafi hrakið þessar hrjáðu sálir út af sporinu.
Við mótumst öll meira og minna af samfélagi okkar í nærumhverfi – sumir sjá hnökrana og hafa styrk til að sporna á móti á meðan aðrir veiklundaðri lepja upp ósiðina og sogast inn í hringiðu óheilbrigðs félagsskapar annað hvort sem gerendur í harðri samkeppni um lífsgæðin eða sem þolendur.
Okkur flestum hryllir við þessum voðaverkum en til eru undantekningar eins og til dæmis þegar auðmaður einn í Bandaríkjunum var myrtur ekki fyrir svo löngu – gerandinn í því tilfelli er nú hylltur sem þjóðhetja þar í landi – landi frjálshyggjunnar.
Sú staðreynd er tvímælalaust vísbending um að þolumæði almennings gagnvart sjálftöku fari þverrandi í heiminum sem eflaust má rekja til þess að gjáin milli auðs og örbyrgðar er sífellt að breikka. Fáir spóa til sín fjármunum oft í gegnum einkanýtingu auðlinda á sama tíma og auknar byrðar eru lagðar á herðar almenningi.
Það er sagt að ósiðir í öðrum löndum taki sér á endanum bólfestu hér út á hjara – svo til að reyna að koma í veg fyrir ofbeldisverk framin í örvæntingu legg ég til að sjávarútvegsstefna þjóðarinnar verði endurskoðuð í sátt við hana og að farið verði ofan í saumana á ríkisstyrktum einkarekstri sem og verktakaþjónustu allri á vegum ríkisins.
Hver króna sem safnast í sjóði auðvaldsins getur hvenær sem er orðið sem sprek borið að ófriðarbáli – sem á endanum getur leitt til borgarastyrjaldar – hvar sem er.
Við skulum ekki gleyma því sem var undirrótin að frönsku byltingunni.
Það þykir ekki lengur fínt að vera flottræfill sem lifir á eymd annarra.
Lifið heil !
Vilhelmína H. Guðmundsdóttir
Lífsreyndur eldri borgari.