Í gær, 06.01.2025, birtist frétt á bb.is þar sem Sigurður Jón Hreinsson, formaður Héraðssambands Vestfjarða (HSV), útskýrði að íþróttafélög væru með skráningar á iðkendum hjá sér allskonar, til þess að auka hlut sinn í lottógreiðslum. Skemmst er frá því að segja að þetta er ekki rétt hjá Sigurði. Það eru mjög mörg íþróttafélög sem hafa þessar skráningar eins réttar og unnt er, en það eru ekki öll íþróttafélög sem gera það.
Til þess að útskýra aðeins hvað lottógreiðslur eru er það þannig að frá íslenskri getspá renna tekjur til ÍSÍ vegna spilunar landsmanna í lottó og getraunum. Þessum tekjum er skipt á milli sérsambanda og íþróttahéraðanna. HSV er eitt af íþróttahéröðunum og fær greiddan skerf af þessum tekjum. Áður var þessum lottótekjum skipt til héraðssambandanna út frá iðkendatölum og félgasmannatali en var breytt á sl ári, m.a vegna þess að félög voru að senda inn rangar skráningatölur. Nú er úthlutað til héraðssambandanna miðað við höfðatölu hvers íþróttahéraðs fyrir sig. HSV skiptir svo hluta af þeim tekjum sem renna til íþróttahéraðsins á milli aðildarfélaga HSV. Til þess að fá greiddar út lottótekjur frá HSV þarf að uppfylla ákveðin skilyrði, t.d. að ársskýrslum félagsins sé skilað inn fyrir 31. maí ár hvert. Þessar greiðslur til íþróttafélaganna skiptast svo niður eftir lögum HSV þar sem segir:
- 70% miðast við fjölda iðkenda, yngri en 18 ára
- 20% miðast við fjölda iðkenda 18 ára og eldri
- 5% miðast við skráða félaga
- 5% er skipt jafnt á félögin
Hafa ber í huga að styrkjum frá sveitarfélögum er einnig skipt á milli félaganna eftir þessari reiknireglu.
Fyrsti formannafundur HSV var haldinn 14. nóvember 2024. Fyrir þann fund fengu allir formenn aðildarfélaga HSV send gögn um úthlutun lottógreiðslna. Við vöktum athygli á að skráning iðkenda (þá sérstaklega yngri en 18 ára) var greinilega ekki rétt. Á formannafundinum var þetta einnig rætt en var augljóst að formaður HSV sá ekki ástæðu til þess að fara í vinnu við að fá uppfærða skráningu enda HSV ekki lengur með starfsmann í vinnu.
Í kjölfarið sendi Þórir tölvupóst til ÍSÍ þar sem hann fékk upplýsingar að dóttir hans, 12 ára, var skráður iðkandi í einu af því félagi sem var augljóslega með ranga skráningu á iðkendafjölda. Margir aðrir sendu einnig beiðni um upplýsingar um slíkt hið sama. Kom á daginn að mjög mörg börn voru skráðir iðkendur hjá sama félagi, þrátt fyrir að hafa jafnvel aldrei stigið fæti inn á æfingu hjá því félagi og ekki hafa neina tengingu við það.
Það er rétt að skráning er allskonar. En árið 2023 var farið í markvissa vinnu við að laga skráningu á iðkendum svo þetta kæmi ekki upp, því vitað var að félög víðsvegar um land voru ekki að uppfæra skráningar hjá sér. Flest öll félög eru með svo til réttar skráningar. Það er ekkert óeðlilegt að skráning sé röng á plús eða mínus 10 krakka vegna þess að gleymst hefur að fjarlægja einhverja af lista sem eru hættir eða gleymst að bæta nýjum iðkendum við. En það er algjör undantekning að félag skrái iðkendur hjá sér sem hafa enga tengingu við félagið og ofskrái iðkendur um eitthvað nálægt 200 þegar heildarskráning er á bilinu 250 – 300 iðkendur.
Hjá Vestra var farið í mjög mikla vinnu við að uppfæra tölur til þess að þær væru sem réttastar. Slíkt hið sama var gert hjá Skíðafélagi Ísfirðinga. Það var gert vegna þess að ákall kom um bætta skráningu og með tilkomu notkunar á Sportabler átti ekki að vera hægt að „svindla“ svona. Það var því okkar trú að allir hefðu lagt í þessa vinnu til þess að skiptingin á opinberu fé væri rétt. Hinsvegar hefur komið á daginn að svo er ekki og var kallað eftir því 19. desember s.l. að farið væri strax í þá vinnu hjá þeim félögum sem höfðu ekki gert það til þess að leiðrétta skiptinguna fyrir seinni úthlutun ársins. Skemmst er frá því að segja að ekki hefur verið vilji til þess hjá stjórn HSV.
Þegar starfsmaður HSV fluttist yfir til Ísafjarðarbæjar skv. samstarfssamningi komu inn tveir starfsmenn UMFÍ á Vestfirði. Þetta eru svokallaðir svæðisfulltrúar. Þeirra hlutverk er að aðstoða íþróttahéröð og íþróttafélög við ýmiskonar mál sem þeirra aðkomu þarfnast við. Við höfum það staðfest frá þessum svæðisfulltrúum að þær hafa margsinnis boðist til að aðstoða stjórn HSV við að vinna úr málum og þar á meðal þessu máli er varðar iðkendafjölda íþróttafélaganna. Þeim erindum hefur ekki verið svarað og hafa þær því ekki komið að málunum, þrátt fyrir mikinn vilja til þess að gera það. Formaður HSV hefur ítrekað borið fyrir sig að ekki sé starfsmaður lengur á vegum HSV, en þarna eru tveir starfsmenn sem stjórn HSV getur fengið til þess að aðstoða sig við lausn á þessu máli, sem og öðrum sem enn þarfnast úrlausnar.
Þrátt fyrir að lottótekjur inn á svæðið séu miðað við höfðatölu þá er ekki endilega rangt að skipta tekjum innan héraðs út frá iðkendatölum, en þær iðkendatölur verða að vera réttar.
Þórir Guðmundsson, formaður barna- og unglingaráðs kkd. Vestra
Ásgerður Þorleifsdóttir, gjaldker Skíðafélags Ísfirðinga