Liðið ár og verkefni framundan í Súðavíkurhreppi

Björgunabáturinn Þór.

Árið 2024 var að mörgu leyti hagstætt fyrir Súðavíkurhrepp. Ýmislegt var í farvatninu fyrir árið, bæði í framkvæmdum, uppbyggingu og viðhaldi fasteigna og innviða. Og auðvitað, fjárfestingum í þeim mannauði sem býr í sveitarfélaginu.  

Einhverjar sveiflur hafa verið með mannfjölda í sveitarfélaginu, en ekki síst vegna tiltektar af hendi sveitarfélagsins við lögheimilisskráningar fólks sem er löngu flutt úr byggðarlaginu eftir því sem tök eru á. Þá hafa íbúar flutt í sveitarfélagið og aðrir brott, en líklega hefur í heildina fækkað um 5-10 manns í raun í upphafi ársins en aðrir skilað sér til baka. Það eru stórar tölur í fámennu sveitarfélagi, en undir lok ársins flutti 7 manna fjölskylda til Súðavíkur í tengslum við móttöku flóttamanna. Ætla má að jafnvægi sé á búsetu í sveitarfélaginu.

Átak var gert í íslenskukennslu fyrir nýbúa og aukin áhersla á inngildingu í samfélagið. Er það gert í samstarfi við Fræðslumiðstöð Vestfjarða og verkefnið Gefum íslensku séns í höndum Ólafs Guðsteins Kristjánssonar. Kunnum við viðkomandi góðar þakkir fyrir starfið sem nú hefur verið sett í gang aftur. Góð mæting var á námskeiðin í Súðavík og hefur það hafist með sama krafti á nýju ári. Hlutfall nýbúa og erlendra ríkisborgara er hátt í Súðavíkurhreppi, eða liðlega 30% íbúa, svo verkefnið er rökrétt í því samhengi að efla samfélagið.

Í sveitarfélaginu, einkum í þéttbýlinu í Súðavík, var ráðist í umhverfisátak í byrjun ársins. Aðdragandi þess var nýtt geymslusvæði í Árdal, þar sem unnt er að geyma gáma og annað af lausamunum sem hafa annars „prýtt“ Súðavíkina. Sett var upp aðgangsstýring að svæðinu, lýsing og öryggismyndavélar og er rafmagn aðgengilegt. Að sjálfsögðu var örlítil tortryggni um ágæti þessa fyrirkomulags, sem þó er að sanna gildi sitt þegar þetta er ritað. Í sama veg var farið í umhverfi hafnar og einkum í því skyni að fækka bílum sem lagt var á hafnartanga við smábátahöfn. Nýtt bílastæði var útbúið ofan við Aðalgötu og klárað með malbiks-framkvæmdum í þorpinu í sumar. Undirliggjandi var öryggissjónarmið svo bílaumferð á hafnartanga hindraði ekki vðibragð slökkviliðs eða björgunarsveitar.

Ráðist var í spennandi verkefni með Bláma og bakhjörlum þess í nýtingu aflagðrar vatnsveitu í Árdal. Var leidd lögn frá Árdal fram hjá þorpinu og niður fyrir svæði við hlið Súðavíkurkirkju. Sótt var um verkefnið í Fiskeldissjóð sem styrkti verkefnið, en afrakstur á að nota í samfélagsverkefni. Með segulhitara má nota vatnsþrýsting á lögn úr Árdalnum þar sem segulhitari skilar varmaorku sem nýttur verður til þess að hita vatn í pottaaðstöðu sem er í hönnun við fjörukambinn neðan þorpsins. Engin sundlaug er í Súðavík svo þetta verður kærkomin viðbót við heilsueflingu og sem samkomustaður. Verkefnið er unnið í samstarfi við Sei arkitekta og verður spennandi að sjá útkomuna.

Stóra verkefnið okkar í Súðavíkurhreppi eru framkvæmdir við nýtt athafna- og iðnaðarsvæði við Langeyri. Síðastliðið vor mættu Kranar ehf. með mannskap og tæki og hófu niðurrekstur stálþils fyrir nýja hafnaraðstöðu. Verkefnið gekk vel og hefur hafnarkantur, næstum fullbúinn, litið dagsins ljós. Undir lok ársins, í nóvember, fengust svo fréttir af því að Ískalk og Orkubú Vestfjarða hefðu náð saman um afhendingu raforku til reksturs kalkþörungaverksmiðju við Langeyri. Niðurstaðan var að leggja rafstreng frá Ísafirði til Súðavíkur fyrir Arnarnes. Risastórar fréttir og jákvæðar, enda mun rafstrengur hafa í för með sér næsta örugga afhendingu raforku í Súðavík auk þess sem afhendingargeta margfaldast. Ritað var undir samninginn milli aðila í Súðavíkurskóla þann 18. desember 2024 að viðstöddu fjölmenni.

Rekstur Súðavíkurhafnar stefnir í rétta átt eftir margra ára taprekstur vegna lítilla eða engra umsvifa. Smábátaútgerð hefur dregist saman og rækju er ekki lengur landað við Súðavíkurhöfn. Á hinn bóginn hefur útgerð sjóstangar eflst og er eina reglulega löndunin við höfnina yfir sumartímann. Rekstur félagsins hefur gengið með ágætum og hefur byggðakvóti þar spilað stórt hlutverk. Stærsta viðbótin fyrir höfnina eru auðvitað umsvif fiskeldis þar sem Háafell gerir út þjónustubáta sína og hefur fóðurgeymslu í húsnæði Frosta. Þar koma reglulega tekjur af uppskipun laxafóðurs í eldissvæðin við Kofradýpi, Seyðisfjörð og Vigurál. Þá hafa önnur umsvif Háafells auk þess jákvæð áhrif á rekstur hafnar. Og… fyrsta skemmtiferðaskipið kom til Súðavíkur í sumar vegna veðuraðstæðna í Bolungarvík. Þá gekk rekstur Melrakkaseturs með ágætum og ferðaþjónusta almennt við Djúp.  

Vegna þeirrar staðreyndar að Súðavíkurhreppur er fámennt en víðfemt sveitarfélag sem býr við afar ótryggar samgöngur að vetri var ráðist í kaup á björgunarskipi hjá Björgunarsveitinni Kofra í Súðavík. Keypt var liðlega 30 ára gamalt björgunarskip frá Vestmannaeyjum – Þór. Um er að ræða vel með farið og öflugt björgunarskip sem búið er tveimur 480 ha vélum með jet búnaði. Björgunarskipið er úr áli, niðurhólfað og tvölfaldur byrðingur og getur flutt allt að 10 farþega. Um er að ræða gríðarlega mikilvægt tæki fyrir fámenna en öfluga björgunarsveit. Varðskipið Freyja kom með Þór til hafnar á Ísafirði þann 14. desember 2024 og var honum siglt til hafnar í Súðavík sama dag.

Margt annað hefur verið gert, framkvæmd og áformað enda stiklað á stóru.

Nýtt ár markast af nýjum áskorunum og áformum um framkvæmdir og vonandi framfarir og öflugra samfélag.

Íslenskunámskeið hófust í 2. viku janúar og eru frekari áform um tengd málefni til eflingar og inngildingar þeirra sem koma lengra að. Aukinn fókus hefur verið settur á Djúpið og fá einhver verkefni þar vonandi framgang. Stækkunaráform eru hjá Saltverk í Reykjanesi og er unnið að lausnum á vegabótum fyrir afleggjarann niður að athafnasvæði þeirra. Áform eru uppi um metnaðarfullt verkefni í Vatnsfirði þar sem gera á fornminjum umhverfi sem sómi er að og auka aðgengi og sýnileika. Stórt verkefni sem verður unnið í samstarfi við Sei arkitekta og Gagarín.

Af öðrum verkefnum eru innviðaverkefni fyrirferðamest, en ráðist verður í endurbætur á bæði fráveitu og vatnsveitu. Með vorinu verður farið í frekari framkvæmdir við landfyllingu fyrir verksmiðju og höfn, en frá desember 2024 og fram eftir vori verða efnisflutningar til fergingar og stækkunar landfyllingar. Landfylling mun stækka um liðlega 40 metra inn Álftafjörðinn og nýtist efni sem farg fyrir fyllinguna á frakvæmdatíma. Þá liggur fyrir að sett verði upp að nýju líkamsræktaraðstaða í Súðavík, annað hvort með nýsmíði eða endurhönnun á húsnæði sem er til staðar svo eitthvað sé nefnt. Fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun er fyrir um 80-100 mkr. en auk þessa uppfærslur í einstaka málaflokkum sem ættu að skila áhugaverðum verkefnum.

Við förum bjartsýn inn í nýtt ár.

Bragi Þór Thoroddsen – sveitarstjóri Súðavíkurhrepps

DEILA