Launamunur karla og kvenna dróst saman á milli áranna 2019 og 2023

Launamunur karla og kvenna dróst saman á milli áranna 2019 og 2023 og á það jafnt við um mun á atvinnutekjum, óleiðréttan og leiðréttan launamun. Kynbundin skipting vinnumarkaðarins í störf og atvinnugreinar skýrir að miklu leyti þann launamun sem til er staðar.

Árið 2023 mældist leiðréttur launamunur karla og kvenna 3,6% en var 4,4% árið 2019. Ef tekið er mið af óleiðréttum launamun var munurinn 9,3% árið 2023 þegar litið er til tímakaups reglulegra heildarlauna en 13,9% árið 2019.

Þegar litið er til tímakaups reglulegra launa var óleiðréttur launamunur karla og kvenna 7,4% árið 2023 en mældist 12,5% árið 2019. Að lokum má nefna að munur á atvinnutekjum mældist 21,9% árið 2023 og hafði minnkað úr 25,5% árið 2019.

Hagstofa Íslands hefur gefið út greinargerð, Launamunur karla og kvenna, sem byggir á rannsókn um launamun karla og kvenna. Rannsóknin er unnin í samvinnu við ráðuneyti sem fer með jafnréttismál (upphaflega forsætisráðuneyti en frá 1. september 2024 félags- og vinnumarkaðsráðuneyti) á grundvelli samstarfssamnings við ráðuneytið.

Í greinargerðinni er farið yfir þróun launamunar miðað við ólíka mælikvarða sem notaðir eru við útreikning á launamun karla og kvenna auk þess sem ljósi er varpað á það hvaða þættir liggja að baki launamunar kynjanna.

DEILA