Landsréttur : málflutningur í dag í áfrýjun Vesturbyggðar

Mynd tekin af vef Arnarlax ehf.

Í dag fer fram í Landsrétti málflutningur í máli sem Vestubyggð höfðaði á hendur Arnarlax um greiðslu á 18,8 m.kr. í hækkuðu aflagjaldi fyrir löndun á eldislaxi í höfnum Vesturbyggðar.  Í Héraðsdómi Vestfjarða var Arnarlax í nóvember 2023 sýknað af kröfunni og var Vesturbyggð að auki gert að greiða Arnarlaxi 4 m.kr. í málskostnað.

Vesturbyggð áfrýjaði málinu til Landsréttar. Búist er við að dómur falli innan fjögurra vikna.

Deilt var um lögmæti aflagjalds og þær breytingar sem Vesturbyggð gerði á gjaldskránni árið 2019. Arnarlax mótmælti breytingunum og greiddi áfram samkvæmr eldri gjaldskrá.

Gjaldskrá hafnasjóðs Vesturbyggðar var breytt í lok ársins 2019. Þá var aflagjald hækkað úr 0,6% í 0,7% af aflaverðmæti auk annarra breytinga. Rebekka Hilmarsdóttir, þáverandi bæjarstjóri sagði að sveitarfélagið telji sig hafa verið innan heimilda hafnalaga þegar gjaldskrá hafnasjóðs var breytt, en breytingin fól í sér breytta aðferðafræði og afsláttur til fiskeldisfyrirtækja var lækkaður.

Stefndi, Arnarlax, benti á að aflagjald skv. hafnalögum nái ekki til eldisfisks og hann verði ekki talinn sjávarafli. Engu að síður hafi Arnarlax ekki vikið sér undan því að greiða sanngjarnt gjald fyrir sannarlega veitta þjónustu og því kosið að gera ekki gagnkröfu um oftekin gjöld heldur eingöngu að verjast kröfu Vesturbyggðar.

Dómurinn féllst á það að eldisfiskur væri ekki sjávarafli og félli ekki undir ákvæði laganna um aflagjald. Því bæri að sýkna stefnda. Að því fengnu taldi dómurinn ekki ástæðu til þess að fjalla um aðrar málsástæður sem málsaðilar byggðu á.

DEILA