Kláfur upp á Eyrarfjall ofan Ísafjarðar

Eyrarkláfur ehf. hefur lagt fram matsáætlun til Skipulagsstofnunar vegna umhverfismats fyrir uppsetningu kláfs upp á Eyrarfjall ofan Ísafjarðar.


Byggja þarf 100 metra langan veg að byrjunarstöð kláfsins. Breidd vegarins veður um 7 metrar. Á svæðinu þarf síðan að byggja bílastæði fyrir 20 bíla og 2 rútur.
Byggð verður byrjunarstöð fyrir ofan fjölbýlishús nr. 3-7 á Hlíðarvegi á svæði sem Eyrarkláfur hefur fengið af Ísafjarðarbæ. Hæð byggingarinnar er um 10 metrar auk kjallara. Stærð byggingar er áætlað um 300 m2.
Á toppi Gleiðarhjalla verður reistur millistaur í 390 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem jarðrask verður frekar lítið en þar þarf að steypa undirstöður undir stálmastur.


Á toppi Eyrarfjalls verður svo endastaur og endastöð kláfsins. Aðstaða á endastöð er biðsalur og stjórnstöð. Áætlað byggingarmagn endastöðvar er í kringum 2 – 300 m2.
Í tengslum við endastöðina er fyrirhugað að reisa móttökusal og veitingastað og er áætlað að sú bygging verði um 7-800 m2 að stærð og tengd við biðsalinn með göngum til að verja fólk fyrir veðri og vindum.
Gert er ráð fyrir að kláfurinn geti annað í kringum 500 manns á klst. Í hverri ferð komast 45 manns fyrir í kláfnum. Gert er ráð fyrir að reksturinn á kláfnum sé aðallega yfir sumartímann en þó hægt að hafa opið um helgar yfir vetrartímann ef veður leyfir.
Eyrarfjall er í um 700 metrum yfir sjávarmáli. Áætlanir gera ráð fyrir að fluttir verða 29.000
manns á ári með kláfnum.

Allir geta kynnt sér matsáætlunina og veitt umsögn í gegnum Skipulagsgáttina eigi síðar en 4. febrúar 2025.

DEILA