Vinna við gerð deiliskipulags fyrir miðbæ Ísafjarðar hófst í ársbyrjun 2023. Hvati deiliskipulagsgerðarinnar eru áform bæjarstjórnar um að efla miðbæ Ísafjarðar með verkefninu Nýsköpunarbærinn Ísafjörður. Liður í verkefninu er að bæta ásýnd miðbæjarins og hófst vinna við endurhönnun hans í ársbyrjun 2021. Með deiliskipulagsgerðinni skapast einnig svigrúm til uppbyggingar íbúðar- og atvinnusvæða í takt við vaxandi eftirspurn síðustu missera.
Í vikunni var haldinn sameiginlegur fundur skipulags- og mannvirkjanefndar með hafnarstjórn til að fara yfir fyrirhugað nýtt deiliskipulag miðbæjar Ísafjarðarbæjar. Ráðgjafar Verkís lögðu fram minnisblað um stöðu skipulagsvinnunnar.
Þar segir að tilgangur skipulagsins er að skapa svigrúm fyrir uppbyggingu og þróun miðbæjarins á Ísafirði. Markmið Ísafjarðarbæjar með skipulagsgerðinni er að móta stefnu um uppbyggingu og ásýnd miðbæjar Ísafjarðar með sterk tengsl við sögu svæðisins, í samræmi við áherslur gildandi aðalskipulags og stefnu
bæjarstjórnar um bætta ásýnd. Tillaga að endurhönnun Aðalstrætis frá Silfurtorgi að Edinborg er lögð til
grundvallar deiliskipulagsgerðinni.
Markmiðið er einnig að umferðaröryggi verði bætt og göngu- og hjólahæfi byggðarinnar aukið. Byggð
og umferðarleiðir verði varðar fyrir ágangi sjávar.
Valkostir um umfang skipulagsbreytinga
Fyrir liggur að huga þarf að sjóvörnum við Pollgötu vegna sjávarflóðahættu, sbr. kafla um sjávarflóð. Ýmsir valkostir eru um mögulega útfærslu flóðavarna, en það gefur einnig möguleika á að endurskoða skipulag við Pollinn og útfærslu Pollgötu. Til að varpa ljósi á helstu valkosti sem koma til álita við skipulagsgerðina eru settir fram þrír mismunandi valkostir.
Helsti munur valkosta felst í umfangi breytinga. Valkostirnir geta verið fleiri og/eða blanda af valkostunum þremur. Í öllum valkostunum er gert ráð fyrir að þétta byggð við Hafnarstræti, Aðalstræti og Pollgötu. Einnig er gert ráð fyrir að endurskoða nýtingu bensínstöðvar og svæðis við lóð OV við Mjósund. Allir valkostirnir gera ráð fyrir tvístefnu hjólaleið um Hafnarstræti/Aðalstræti. Í öllum tilvikum er hægt að skoða frekari útfærslu á umferðarleiðum.
Stefnt er að því að haldinn verði opinn kynningarfundur í september. Þar verður óskað eftir aðilum til þátttöku í skipulagsvinnunni (skipulagshópur). Hópurinn samanstendur af íbúum og fulltrúum fyrirtækja
og stofnana. Skipulagshópurinn hittist einu sinni eða tvisvar með fulltrúum Ísafjarðarbæjar og ráðgjafa áður en vinnslutillaga verður kynnt í nóvember.