Ísafjörður: tímaúthlutun í íþróttahúsi breytt

Íþróttahúsið á Torfnesi.

Skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd Ísafjarðarbæjar samþykkti í gær lítilsháttar breytta miðlunartillögu stjórnar HSV um úthlutun tíma í íþróttahúsinu á Torfnesi. Auk stjórnar HSV komu formenn Vestra og Harðar að málinu.

Meginbreytingin er að tímarnir verða aftur 50 minútur í stað 60 minútna, sem ákveðið var í haust. Við það fjölgar tímum um 14 á viku. Fær Handknatteiksdeild Harðar 9 af þeim, blakdeild Vestra fær 2 tíma og körfuknattleiksdeild Vestra fær 3 tíma.

Formaður aðalstjórnar Vestra hafði lýst yfir óánægju með tillögu stjórnar HSV og vildi ekki breyta tímatöflu um miðjan vetur. Í svari formanns stjórnar HSV við gagnrýninni kemur fram að tillagan HSV sé mild og hafi óveruleg áhrif á starf deilda innan Vestra.

Á fund nefndarinnar í gær komu fulltruar frá HSV, Vestra og Harðar og virðist sem náðst hafi sameiginleg niðurstaða á fundinum.

DEILA