Lögð hefur verið fram skipulagslýsing breytinga á Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 og vegna vinnu við nýtt deiliskipulag, unnin af EFLU verkfræðistofu vegna fyrirhugaðs kláfs upp á Eyrarfjall á Ísafirði.
Stofnaður verður nýr landnotkunarreitur undir afþreyingar- og ferðamannasvæði en framkvæmdin, sem verður í höndum Eyrarkláfs ehf., felst í að útbúa bílastæði fyrir farþega kláfsins, upphafsstöð kláfsins í hlíð Eyrarfjalls og endastöð á toppi fjallsins með einum millistaur á Gleiðarhjalla. Á toppi Eyrarfjalls verður gert ráð fyrir þjónustubyggingu og hóteli á seinni stigum uppbyggingar. Gerð verður breyting á gildandi deiliskipulagi fyrir hlíðina neðan Gleiðarhjalla – ytri hluta frá árinu 2010 og hluti þess felldur inn í nýtt deiliskipulag.
Samkvæmt niðurstöðu Skipulagsstofnunar er framkvæmdin matsskyld og er vinna hafin við mat á
umhverfisáhrifum.
Markmið deiliskipulags er að útfæra nánari stefnu og ákvæði fyrir Eyrarkláf svo framkvæmdin og
rekstur kláfsins valdi eins lítilli röskun á umhverfinu eins og kostur er, bæði til lengri og skemmri tíma.
Tilgangur framkvæmdarinnar er að skapa möguleika fyrir fólk til að njóta útsýnis frá toppi Eyrarfjalls og
þróa svæðið sem útivistar- og afþreyingarsvæði.