HSV: varaformaður stjórnar segir af sér

Ingibjörg Elín Magnúsdóttir.

Ingibjörg Elín Magnúsdóttir, varaformaður Héraðssambands Vestfjarða sagði sig úr stjórninni í gærkvöldi. Í tölvupósti sem hún sendi á stjórnarmenn segir hún að félög innan HSV séu farin að gjalda fyrir óleyst ágreiningsmál sem hafi komið upp og vísar þar til úthlutun tíma í íþróttahúsinu á Torfnesi. Þar gagnrýndu forsvarsmenn Harðar úthlutunina og töldu handknattleikinn hafa fengið of fáa tíma.

Þá ályktaði stjórn HSV um það mál og segist Ingibjörg ekki hafa tekið þátt í þeirri afgreiðslu vegna framkomu „ákveðinna forsvarsmanna eins íþróttafélags sem fóru gersamlega yfir strikið í framkomu“. Einnig vísar Ingibjörg til þess að formaður HSV, Sigurður Hreinsson hafi ekki verið tilbúinn til þess að endurskoða fjölda skráðra iðkenda hjá einstökum íþróttafélögum, þrátt fyrir að vilji hafi verið til þess hjá fulltrúum margra félaga.

Þriðja málið , sem Ingibjörg nefnir, er að ekki hafi verið úthlutað úr afreksmannasjóði HSV og á fundi í gær var spurst fyrir um það. Ingibjörg segir að formaður stjórnar hafi ekki viljað það og sagt að starfsmaður Ísajarðarbæjar hafi klúðrað málum. Ingibjörg segist ekki sammála því og segir að það sé vel hægt að ná saman um það mál.

Ingibjörg hefur setið í stjórninni í tæp þrjú ár segist ekki vilja eyða tíma sínum og kröftum í þetta frekar. Hvernig unnið sé núna fari gegn gildum hennar.

DEILA