HSV: skráning iðkenda alls konar – vegna lottó

Sigurður Jón Hreinsson, formaður stjórnar HSV hefur svarað Ingibjörgu Elínu Magnúsdóttur, varaformanni sem sagði sig úr stjórn HSV í síðustu viku. Eitt af því sem Ingibjörg gagnrýndi var að endurskoða þurfi skráðann fjölda iðkenda en meiningar hafa verið settar fram um að íþróttafélagið Hörður skrái ranglega börn og unglinga sem iðkendur. Segir Ingibjörg í pósti sínum að formaðurinn hafi ekki viljað taka þetta mál fyrir.

Sigurður Jón svarar þessu sérstaklega og segir að það hafi það verið vitað í mörg ár að skráningar iðkenda hjá íþróttafélögum hafi verið alls konar, í þeim tilgangi að félög auki sinn hlut í lottógreiðslum.  Þetta eigi við um öll íþróttafélög á landinu og sé „megin ástæðan fyrir því að hætt var að nota Felix og farið yfir í Sportabler“ sem væntanlega er einhvers konar skráningarkerfi.  Ef fara eigi yfir skráða iðkendur, verði að gera það hjá öllum félögum, ekki bara einu. 

„Skráðir iðkendur hjá félögum innan HSV eru um 1900.  Við höfum ekki starfsmann til að vinna þetta verkefni og ég ætla mér ekki að bæta því ofan á önnur verkefni.  Þá eru mestar líkur á því að málið sé hvort eð er að leysast, þar sem flest félög eru farin að nota Sportabler og líkur eru á að hægt sé að fá aðgang að kerfinu í gegnum aðgang Ísafjarðarbæjar fyrir lægri upphæð en ella.  Líklegast er að í tillögu um nýjar úthlutunarreglur lottórgreiðsla, verði gerð krafa um notkun á Sportabler, en það er umræða fyrir næsta ársþing.“

Á formannafundi félaga innan HSV um miðjan nóvember sl. voru gerðar athugasemdir við tölur um iðkendafjölda sem væru svo aftur forsenda fyrir greiðslum til einstakra félaga. Fram kom að skrifstofa UMFÍ/ÍSÍ muni kanna hvort hægt sé að fara í einhverja áreiðanleikakönnun á þessum tölum.

Stjórn HSV var falið að koma með tillögu fyrir næsta formannafund að breytingu á lögum sambandsins varðandi úthlutunarreglur.

Fram kom á þessum formannafundi að greiðslur vegna lottó muni dragast saman um 2/3 vegna breyttra úthlutunarreglna á landsvísu. Auk greiðsla frá lottó þá greiðir Ísafjarðarbær samkvæmt samstarfssamningi HSV og Ísafjarðarbæjar 2,5 milljón króna á þessu ári í beina rekstrarstyrki til íþróttafélaganna og á sú upphæð að vera vísitölutryggð næstu árin.

DEILA