Þegar þíða kemur í kjölfar frosts og kulda eða þegar miklir umhleypingar eru eykst hættan á því að holur myndist í bundnu slitlagi, malbiki og klæðingu.
Ein af ástæðum þess að holur myndast er þegar vatn liggur á vegum. Ekki þarf nema litla sprungu í malbiki til að vatn komist þar undir og safnist fyrir. Þegar vatn frýs eykst rúmmál þess og þegar það þiðnar aftur, er malbikið uppspennt. Ef þungur bíll ekur þar yfir og brýtur það niður getur hola myndast mjög hratt.
Þó nokkrar tilkynningar um tjón hafa borist undanfarna daga þar sem fólk hefur ekið ofan í djúpar holur, skemmt dekk eða orðið fyrir annars konar skemmdum.
„Veghaldari vegar sem opinn er almenningi til frjálsrar umferðar ber ábyrgð á tjóni sem hlýst af slysi á veginum þegar tjónið er að rekja til gáleysis veghaldara við veghaldið og sannað er að vegfarandi hafi sýnt af sér eðlilega varkárni.”
Hægt að senda inn tjónaskýrslu í gegnum „mínar síður“ á vegagerdin.is ef um er að ræða vegi sem Vegagerðin ber ábyrgð á eða til sveitarfélags eða annara veghaldara.