Heimastjón Arnarfjarðar kom saman á miðvikudaginn og ræddi meðal annars málefni Bíldudalsvegar og stöðu framkvæmda við nýjan veg.
Heimastjórn Arnarfjarðar skoraði á samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Eyjólf Ármannsson, að tryggja áframhaldandi vinnu við Bíldudalsveg 63 frá Bíldudalsflugvelli og upp á Dynjandisheiði.
Heimastjórnin segir í bókun að nauðsynlegt sé að staðið verði við upphaflegar áætlanir um endurbyggingu vegarins þar sem framkvæmdum á að vera lokið 2029. Brýnt sé að verkhönnun verði lokið sem allra fyrst svo unnt sé að hefja framkvæmdir við verkið sem allra fyrst og að tryggt sé að fjármagn verði til staðar fyrir verkefnið.
Styttir leiðina suður um 44 km
Þá segir eftirfarandi:
„Bíldudalsvegur styttir leiðina um 44 km sé ekið suður á bóginn en einnig skiptir leiðin miklu máli fyrir umferð til og frá svæðinu. Einnig er hringurinn um sunnanverða Vestfirði mjög mikilvægur fyrir ferðaþjónustu á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegurinn er gamall malarvegur sem annar engan veginn þeim umferðarþunga sem um hann fer og hindrar að þungaflutningar frá Bíldudal geti farið fram með sem hagkvæmustum hætti. Mikill flutningur er frá Bíldudal á laxaafurðum og þarf að fara um þrjá fjallvegi, Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði í stað þess að hægt yrði að fara um hluta Dynjandisheiðar eftir að Bíldudalsvegur verður endurbyggður. Slíkt sparar mikinn akstur og útblástur sem skiptir miklu máli í loftslagsaðgerðum auk annars kostnaðar sem fylgir akstri þungra flutningabíla yfir fjallvegi.“