Á vef Háskólaseturs Vestfjarða er vakin athygli á því að Háskólasetur Vestfjarða verður 20 ára í ár. Það var þann 12. mars 2005 að 42 stofnaðilar komu saman á stofnfundi og stofnuðu sjálfseignarstofnunina Háskólasetur Vestfjarða með því markmiði að hér risi háskóli. Stofnaðilar voru rannsóknarstofnanir sem starfa á svæðinu, opinberir aðilar, fyrirtæki og félög á svæðinu sem og allir háskólar landsins, sem voru níu talsins í þá daga.
Síðan þá hefur margt vatn runnið til sjávar og Háskólasetur Vestfjarða vissulega ekki orðinn háskóli með stóru H-i, en er engu að síður virkur hlekkur í íslenska háskólalandslaginu og einn af vitum þess úti á landi. Nú eru alltaf upp undir 80 nemendur skráðir í nám hjá HA á vegum Háskólaseturs Vestfjarða, nú eru á öllum tímum, allt árið í hring, um 80 nemendur búsettir á Vestfjörðum á vegum Háskólaseturs, um 15 stöðugildi hafa orðið til vegna Háskólaseturs, ekki bara þau á launaskrá, heldur líka stöðugildi í samstarfi við aðrar stofnanir, stundakennarar og þau stöðugildi sem eru eiginlega verðmætust, stöðugildin sem leggjast að, sem eru hér eingöngu vegna tilvist Háskólaseturs, t.d. starfsmenn bandaríska samstarfsskólans, doktorsnemar sem kjósa að starfa hér eða rannsóknarmaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.
Ákveðið hefur verið að halda ársfund í ár þann 14. mars 2025 til að minnast eiginlegs stofndags og heiðra öll þau sem í þá daga börðust fyrir stofnun háskólastofnunar á Vestfjörðum og létu engan bilbug á sér finna. Í tengslum við ársfund og stofndag er stefnt að að halda opið hús í Vestrahúsi og afmælishátíð. Svo verður Háskólahátíð eins og árlega á þjóðhátíðardegi og ætli það verði ekki fleiri tækifæri til að halda hátíðlegt afmælisár.
Afmælismerki Háskólasetursins.