Gott ár fyrir Vestfirði

Gylfi Ólafsson.

Árið 2024 var gott ár fyrir Ísafjarðarbæ og Vestfirði alla. Til viðbótar við formennsku í bæjarráði Ísafjarðarbæjar tók ég í haust við sem formaður Fjórðungssambands Vestfirðinga og Vestfjarðastofu. Hér fer ég yfir fréttir ársins út frá þessum tveimur hlutverkum.

Uppbygging og undirbúningur fyrir meiri uppbyggingu í Ísafjarðarbæ

Í apríl samþykkti Ísafjarðarbær stefnu og aðgerðaáætlun um móttöku skemmtiferðaskipa. Þar voru ýmsar nýjungar sem fallnar voru til að bæta upplifun gesta og heimafólks, bæta innviði og auka langtímasjálfbærni. Í ágúst sá ég tilefni til að skrifa grein um jákvæð áhrif stefnunnar sem höfðu strax komið fram. Þetta var fyrsta sumarið sem Sundabakkinn var í fullri notkun, en þó er enn margt ógert, til dæmis gerð torgs, gangstíga og móttökuhúss auk varanlegrar klósettaðstöðu. Margt mun vinnast næstu tvö sumur í þessum efnum.

Í júní opnuðu tveir fótboltavellir eftir gagngerar endurbætur, æfingavöllur og keppnisvöllur sem fékk nafnið Kerecis-völlurinn. Slydda rammaði inn þetta tímabil, því það var vont veður og tryggara að vera vel klæddur bæði þegar völlurinn var vígður og þegar síðasti leikur meistaraflokks Vestra var leikinn og liðið hélt sér uppi í Bestu deildinni. Við sáum einnig meistaraflokk kvenna spila á nýjan leik.

Í Tungudal fannst heitt vatn og fékkst þar staðfesting á að ég er ekki sannspár í jarðfræði, því ég hafði enga trú á að það fyndist. Næstu misseri fara í að hanna og byggja hús og lagnir til að þetta vatn nýtist íbúum til húshitunar og vonandi leita að meira vatni. Sá böggull fylgir þó skammrifi að íbúðahúsalóðir á svæðinu sem voru tilbúnar til gatnagerðar og úthlutunar verða ekki tækar til þess, að minnsta kosti næstu árin. Því hefur strax verið farið í skipulagsvinnu í Tunguhverfi til að fjölga einbýlis- og raðhúsalóðum þar á móti.

Í skipulagsmálunum hefur mesti þunginn verið á breytingum á deiliskipulagi á Suðurtanga, þar sem nú er búið að skipuleggja land fyrir fjölbreytta atvinnu- og hafnarstarfsemi, til dæmis höfuðstöðvar Kerecis og HG/Háafells auk innviða fyrir skemmtiferðaskip og slökkvistöð. Skipulagið bíður nú staðfestingar Skipulagsstofnunar. Þá hefur vinna við flókið skipulag miðbæjar haldið áfram og samningar tekist um að byrja að nýju vinnu við gerð aðalskipulags.

Nú á haustmánuðum tryggði Ísafjarðarbær sér ríflega 300 m.kr. styrk frá Evrópusambandinu til úrbóta í fráveitumálum í Skutulsfirði. Verkið, sem felst meðal annars í sameiningu útrása og uppsetningu hreinsistöðva, mun taka sex ár og er síðasti áfanginn í gangskör sem gerð hefur verið á kjörtímabilinu, en hreinsistöðvar hafa verið eða verða settar upp fljótlega á Flateyri, Þingeyri og Suðureyri.

Árinu lýkur nú á tímamótum bæjarstjóra. Við kveðjum Örnu Láru Jónsdóttur úr stól bæjarstjóra og við tekur Sigríður Júlía Brynleifsdóttir. Um leið og ég þakka Örnu gæfuríkt samstarf óska ég henni góðs gengis á Alþingi. Sigga mun leiða bæinn út þetta kjörtímabil sem lýkur eftir um eitt og hálft ár.

Af vestfirskum fréttum

Í október tók ég við sem formaður Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga. Þar hefur meðlimum fækkað um einn, með sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps. Þurfti í kjölfarið að kjósa nýja sveitarstjórn og varð þar töluverð endurnýjun.

Vestfjarðastofa hefur á síðustu vikum gengið frá tveimur skjölum sem vert er að minnast á. Annað er svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs, en síauknar kröfur og metnaður í þeim málum krefjast þess að sveitarfélögin taki saman á málunum. Skýrslan sýnir mikinn kostnaðarmun milli sveitarfélaga og að ef ekkert yrði að gert myndi sá kostnaður enn aukast.

Hitt skjalið, öllu mikilvægara, er Sóknaráætlun til næstu fimm ára. Sóknaráætlun er byggðaáætlun sem byggir á mati íbúa á því hvernig þeir vilja að svæðið sitt þróist næstu árin. Hún er gagnleg til að stilla saman strengi og gefa Vestfjarðastofu og öðrum leiðarvísi um það hvert við viljum stefna.

Vegbætur yfir Dynjandisheiði héldu áfram og nokkrir nýlagðir kílómetrar voru opnaðir. Að því loknu fór þó allt í stopp þegar aurinn kláraðist en með samþykkt fjárlaga var peningur að nýju settur. Þar standa upp úr þrjú verkefni; brýr yfir Gufufjörð og Djúpafjörð, næsta kafla Dynjandisheiðar og rannsóknir á nýjum göngum.

Þó stjórnarsáttmálinn kveði ekki á um að samgöngusáttmáli verði gerður fyrir Vestfirði eins og nýstofnað Innviðafélag Vestfjarða hafði sett á oddinn, segir í stjórnarsáttmálanum að rjúfa eigi  „kyrrstöðu í jarðgangagerð“ sem varað hefur síðan Dýrafjarðargöng opnuðu í október 2020.

Lagareldisfrumvarp dagaði uppi á þingi, en laxeldið hélt áfram að vaxa með miklli aukningu í slátrun á laxi. Sláturhús Arctic Fish í Bolungarvík er að ljúka sínu fyrsta heila rekstrarári og Háafell hefur lagt í gríðarlega fjárfestingu á Nauteyri sem hafa mun sitt að segja á næstu misserum og árum.

Þá var undirritað samkomulag milli Kalkþörungafélagsins og Orkubús Vestfjarða um lagningu rafstrengs að Langeyri sem er forsenda fyrir sjálbærri vinnslu kalkþörunga þar og mun auka afhendingaröryggi raforku til almennings verulega.

Það er byr í seglum Vestfirðinga og ég hlakka til að halda áfram starfinu á vettvangi Vestfjarðastofu.

Gylfi Ólafsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar fyrir Í-lista og formaður stjórna Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga.

DEILA