Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga ræddi stöðu farnetsuppbyggingar á Vestfjörðum á fundi sínum 18. desember. Fyrir liggur Fjarskiptaáætlun Vestfjarða (apríl 2024) og stefnumörkun stjórnvalda um uppbyggingu farnets á stofnvegum fyrir árslok 2026.
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga bókaði að hún harmi þá ákvörðun stjórnvalda að skera af fjármagn
sem ætlað var til uppbyggingar farnets á stofnvegum og fara því gegn markmiðum í samþykktri Fjármálaáætlun 2025-2029. Tilgreint fjármagn var ætlað til samstarfs ríkisins (Öryggisfjarskipta ehf.) með fjarskiptafyrirtækjum og ljúka uppsetningu nauðsynlegra senda fyrir árslok 2026. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga bendir á að nú verða fjarskiptafyrirtækin ein með uppbyggingu farnetsins og vænta má að verkefninu seinki verulega. Stjórnvöld eru því hér ábyrg að viðhalda óöryggi vegfarenda á stofnvegum á Vestfjörðum til óljósar framtíðar jafnt á farneti sem og Tetrakerfi viðbragðsaðila.
Skorar á nýja ríkisstjórn að falla frá niðurskurðinum
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga skorar á komandi ríkisstjórn að snúa þessari ákvörðun og veita heimild í fjáraukalögum 2025 til að setja fjármagn að nýju í verkefnið. Á Vestfjörðum er um að ræða 24 senda sem þarf að byggja upp auk viðbótarbúnaðar fyrir Tetrakerfi. Verði ákvörðun um niðurskurð ekki snúið, verður að tryggja að þau verkefni sem fara af stað á vegum fjarskiptafyrirtækja verði forgangsraðað á Vestfirði.