Félagsheimilið Flateyri: hverfisráð Önundarfjarðar og Leikfélag Flateyrar lýsa yfir vonbrigðum með áformaða sölu

Mikil veisluhöld voru í félagsheimilinu á Flateyri í tilefni 50 ára afmælis björgunarsveitarinnar Sæbjargar

Hverfisráð Önundarfjarðar bókaði á fundi sínum í byrjun desember 2024 um fyrirhugaða sölu Félagsheimilis Flateyrar sem bæjarráð Ísafjarðabæjar lýsti yfir um miðjan nóvember að það væri fylgjandi.

Var erindið tekið fyrir á bæjarráðsfundi á mánudaginn, rúmum mánuði síðar.

Í bókuninn lýsir Hverfisráð Önundarfjarðar yfir vonbrigðum með að ekki hafi verið haft samband við ráðið
og borið undir það að enn standi til að selja samkomuhúsið á Flateyri. Hverfisráðið bendir á að húsið hefur verið nýtt með góðum árangri fyrir þær tvær leiksýningar sem Leikfélags Flateyrar hefur sett upp síðan
það var endurvakið fyrir rúmum tveimur árum síðan.

Samfélagið á Flateyri sé samhent og mörgum mjög annt um húsið. Viðgerðir voru unnar í sjálfboðavinnu árið 2005 fyrir fé úr sjóðnum samhugur í verki og styrk frá fyrirtækinu Kambi. „Við viljum gjarnan fá tækifæri til samtals áður en skrefið um að auglýsa húsið til sölu verður tekið og skoða alla möguleika á áframhaldandi eigu Ísafjarðarbæjar á húsinu í samráði við samfélagið á Flateyri.“

Einnig var lagt fram erindi frá Leikfélagi Flateyrar. Það er einnig lýst yfir vonbrigðum með áform Ísafjarðarbæjar um sölu hússins. Gerð er athugasemd við fullyrðingar um viðhaldskostnað sem bærinn hafi borið af húsinu.

„Samkvæmt bestu vitund Flateyringa sem af húsinu hafa komið síðustu áratugina hefur húsinu ekki verið haldið við að nokkru leyti síðan árið 2005 þar sem vaskir Flateyringar lögðu vinnu sína fram og peningur í framkvæmdirnar kom úr sjóðnum Samhugur í verki, Hjálmi og öðrum frjálsum framlögum. Umsjón hússins var svo í höndum Lýðskólans frá 2018-2023.“

Þá segist Leikfélagið ósammála því sem kemur fram í fundargerð bæjarráðs og minnisblaði um að lítil notkun hafi verið á húsinu undanfarin ár.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að ræða við bréfritara og leggja málið fyrir að nýju.

DEILA