Vesturbyggð og Rauði krossinn í Barðastrandarsýslu hafa gert með sér samstarfssamning um söfnun og endurnýtingu á textíl. Markmið samningsins er að draga úr sóun og stuðla að sjálfbærari nýtingu á textílefnum á svæðinu.
Samningurinn kemur í kjölfar nýrra laga sem gera sveitarfélögum skylt að halda úti sérstakri söfnun á textíl í grenndargáma. Í samningnum felst því að sveitarfélagið komi upp textílgámum á grenndarstöðum sínum á Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði á árinu 2025. Þessi breyting bætir aðgengi íbúa að textílsöfnun með fjölgun söfnunarstaða.
Rauði krossinn mun sjá um að flokka textílinn sem safnast og reyna að hámarka magnið sem endurnýtist. Textíll sem ekki nýtist, til dæmis með endursölu, verður fluttur úr sveitarfélaginu til endurvinnslu annars staðar.
Nánari upplýsingar um komandi gáma munu birtast inn á heimasíðu Vesturbyggðar þegar þeir verða teknir í gagnið.