Dynjandisheiði: fjarskiptagámurinn kominn upp og tengdur

Jón Svanberg Hjartarson.

Jón Svanberg Hjartarson framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar staðfestir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að fjarskiptagám Neyðarlínunnar á Dynjandisheiði var komið fyrir í byrjun desember til prufu en frá 20. desember var lokið við uppsetningu á þeim fjarskiptabúnaði sem á að vera í gámnum, þ.e. Tetrasendir og farsímasendar frá fjarskiptafélaginu Nova sem tengdir eru öllum fjarskiptafélögunum. Gámurinn er staðsettur upp á S/A verðiri öxl Urðarfells, ofan við Dynjandisvog.

„Búnaðurinn virkar vel og eru sambönd stöðug og enn sem komið er allt skv. væntingum. Samkvæmt okkar mælingum og upplýsingum frá notendum er nú bæði farsíma og Tetrasamband tryggt frá Dynjandisvogi og upp á há-heiði Dynjandisheiðar.  Tetrasamband hefur svo mælst yfir alla heiðina frá gatnamótum  Bíldudalsvegar/Dynjandisheiði og niður að Dynjandisvogi. Skv notendum nær farsímasamband að mestu frá Dynjandisvogi og suður yfir Dynjandisheiðina.“

Jón Svanberg bætir því við að í raun sé um tilraunaverkefni að ræða sem er ætlað að mæta þörf á stöðum þar sem erfitt, eða mjög kostnaðarsamt, að komast í fast rafmagn. „Með þessu vonumst við til að geta tryggt örugg fjarskiptasambönd á þessum stað þrátt fyrir að ekki séu fyrirliggjandi ljósleiðarasamband eða önnur slík fjarskipti. Verkefnið er samstarfsverkefni með fjarskiptafélaginu Nova sem leggur til búnað fyrir fjarskiptasambönd. Notuð eru núverandi farsímakerfi en einnig lágflugs gerfihnattatækni.“

Rafgeymar úr rafmagnsbílum

„það sem er sérstakt við þennan búnað er að þarna er verið að samkeyra rafstöð á staðnum með sólarsellum en einnig höfum við komið þarna fyrir rafgeymum úr tjónuðum rafmagnsbílum, sem gerir okkur kleift að lágmarka keyrslu rafstöðvar og þannig lágmörkum við brennslu díselolíu. Þá er einnig verið að gefa þessum rafgeymum framhaldslíf.  Þessi búnaðarsamsetning er hönnuð og samsett af tæknimönnum Neyðarlínunnar en til gamans má geta þess að í gámnum eru rafgeymar úr þremur Mitshubishi Outlander rafmagnsbílum.

Svo er bara að sjá hvernig þessu búnaður stendur af sér veturinn í hreina loftinu.“

Uppfært kl 12:25 3. jan og bætt við upplýsingum um þátttöku Nova.

DEILA