Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um úthlutun byggðakvóta fyrir yfirstandandi fiskveiðiár 2024/25. Almennum byggðakvóta er úthlutað til 42 byggðarlaga í 25 sveitarfélögum á fiskveiðiárinu. Heildarráðstöfun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu nemur alls 3.807 þorskígildistonnum. Heildarúthlutun kvóta dregst saman um 1.022 þorskígildistonn milli ára og verða breytingar á magni úthlutaðra þorskígildistonna til einstakra byggðarlaga í samræmi við það. Samdrátturinn er liðlega 21% milli ára.
Til Vestfjarða er ráðstafað 1.593 tonnum. Næstmest er úthlutað til Norðurlands eystra 1.064 tonnum.
Til viðbótar við þá úthlutun sem er á fiskveiðiárinu 2024/2025 koma eftirstöðvar frá fyrra ári einnig til ráðstöfunar í þeim byggðarlögum sem slíkt á við. Alls nemur flutningur almenns byggðakvóta milli ára nær 1.038 þorksígildistonnum.
Mest er úthlutað til Tálknafjarðar og Flateyrar 285 tonn á hvorn stað. Til Þingeyrar er úthlutað 275 tonnum, til Ísafjarðar 195 tonnum, 192 til Suðureyrar, 130 tonnum til Hólmavíkur, 76 tonn til Drangsness og 65 tonn til Bolungavíkur. Til Súðavíkur er ráðstafað 30 tonnum og 15 tonnum til fjögurra staða, Norðurfjarðar, Bíldudals, Patreksfjaðar og Brjánslækjar.