Eldislax er langvinsælasti fiskurinn sem matvara í Bretlandi samkvæmt því sem fram kom á vef SalmonBusiness á aðfangadag. Hlutdeild eldislaxins er 48% af kældum sjávarvörum seldum í landinu. Salan jókst um 9% milli ára sem er nærri tvöfalt meira en aukingin sem varð almennt í sölu á sjávarafurðum.
Heildarsalan á eldislaxi nam liðlega 200 milljörðum ísl. króna og var hlutdeild eldislaxins 28% af sölu á öllum sjávarafurðum á Bretlandsmarkaði. Næst eldislaxinum í sölu var heitsjávarækja sem var þó aðeins um fjórðungur af sölu á eldislaxinum.
Það er einkum skoskur eldislax sem stendur undir framboðinu en þar voru framleidd um 185 þúsund tonn á síðasta ári. Tavish Scott, framkvæmdastjóri samtakanna Salmon Scotland segir í viðtali við Salmon Business að skýringin á vinsældum eldislaxins sé að heilnæma vöru sé að ræða. Hann segir að laxeldið hafi mikla þýðingu fyrir Skotland. Um 2.500 bein störf séu við framleiðsluna og um 10.000 störf önnur sem byggja á laxeldinu eða samtals um 12.500 störf.
Eldislax er einnig vaxandi útflutingsvara frá Bretlandi. Á síðasta ári hafði verið flutt út eldislax fyrir um 130 milljarða króna. Stærstu erlendu markaðarnir voru í Frakklandi og Bandaríkjunum en veulega aukning var í sölu til Asíulanda.