Bíldudalur: framleiðslumet Ískalk

Halldór forstjóri og Josie við veislutertuna.

Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal fagnaði í gær góðum árangri á síðasta ári. Sett var nýtt framleiðslumet og voru framleidd rúmlega 82.000 tonn af kalkþörungum til útflutnings á árinu 2024. Eru það um 1.000 tonnum meira en fyrra metárið sem er frá 2022.

„Af því tilefni fögnuðum við með okkar starfsfólki og verktökum í dag með því að gæða okkur á fallegri og gómsætri tertu“ sagði Halldór Halldórsson, forstjóri Ískalk. „Við erum þakklát starfsfólki okkar fyrir að leggja sig fram við að gera þetta mögulegt.“

Um þrjátíu manns starfa hjá verksmiðju Kalkþörungafélagsins. Árlegar tekjur félagsins eru nálægt 2 milljörðum króna. Félagið hefur gert samninga um nýja kalkþörungaverksmiðju í Súðavík, sem mun vinna úr kalkþörunganámum í Ísafjarðardjúpi og áformað er að hefji starfsemi á árinu 2027. Nýja verksmiðjan á að geta framleitt úr 125.000 m3 á ári og er vinnustaður fyrir 20-25 manns auk afleiddra starfa.

Ewa er gæðaeftirlitsmaður í fyrirtækinu.

Almar framleiðslustjóri og Josie sem sér um öll þrif og hefur starfað í ein 15 ár hjá fyrirtækinu.

Myndir: aðsendar.

DEILA