Bíldudalsvegur : ekki kominn á verkhönnunarstig

Mynd af Bíldudalsvegi í samgönguáætluninni frá 2020.

Framkvæmdir við veginn frá flugvellinum innan við Bíldudalsvog í Arnarfirði og upp á Dynjandisheiði eiga að hefjast á þessu ári samkvæmt samþykktri og gildandi samgönguáætlun Alþingis fyrir árin 2020 – 2034. Framkvæmdum á að vera lokið árið 2029. Staða verksins er þannig að búið er að ljúka frumdrögum, sem er fyrsta hönnunarstigið, en vegurinn er ekki kominn á verkhönnunarstig. Verkið er ekki fullhannað nema að litlum hluta segir í svörum Vegagerðarinnar við fyrirspurn Bæjarins besta.

Ný tillaga að langtíma samgönguáætlun 2024 – 2038 var lögð fram á Alþingi í byrjun október 2023. Þar er lagt til að seinka framkvæmdum við Bíldudalsveg, 30 km. og og að verkið verði unnið á árunum 2029-2033. Kostnaður er áætlaður 6.500 milljónir króna er tekið fram að nokkur óvissa sé í áætluninni.

Ekki náðist samkomulag um afgreiðslu nýju samgönguáætlunarinnar og dagaði málið uppi á Alþingi vorið 2024 og hefur ekki verið lagt fram að nýju.

Samgönguáætlunin sem samþykkt var í júní 2020 er því enn í gildi. Verkið ætti því að vera fullhannað nú og jafnvel búið að bjóða verkið út.

Ljóst er því að Vegagerðin miðar undirbúning við tillöguna sem ekki var samþykkt en fer ekki eftir ákvörðun Alþingis um að hefja verkið í ár.

-k

DEILA