Forseti Íslands, Forsætisráðherra, aðrir ráðherrar og aðrir góðir gestir,
Það er mér mikill heiður að fá að vera með ykkur hér í kvöld og flytja ávarp við þessa helgistund í Guðríðarkirkju.
Á stundum sem þessum erum við minnt á mikilvægi minninganna sem tengja fortíð við nútíð, minningar sem veita okkur samhengi og dýpt í okkar daglega lífi. Minningarnar geta verið ljós sem varpar birtu yfir lífsferil okkar, lýsir upp myrkustu stundirnar og vísar okkur leiðina eins og áttaviti í óvissu framtíðarinnar.
Minningarnar geta leitt okkur áfram, gefið lífinu samhengi og minnt okkur á hvar við höfum verið og hvert
við stefnum.
I.
Það geta verið minningarnar um fyrsta bros barns eða hláturinn í samverustundum fjölskyldunnar. Minningar geta líka verið okkur sárar.
Við erum hér saman komin til að minnast þeirra sem fórust í snjóflóðinu í Súðavík fyrir 30 árum síðan, þann örlagaríka dag, 16. janúar 1995. Fjórtán manns létu lífið og atburðurinn markaði djúp spor í hjörtum okkar allra sem tengjumst Súðavík, snerti á vissan hátt strengi í hjörtum allra landsmanna. Þegar við minnumst þeirra sem við höfum misst, erum við ekki aðeins að syrgja – við erum að heiðra þau og með því að læra af fortíðinni getum við öðlast styrk til að byggja betri framtíð. Í því felst kraftur samverunnar, þar sem við speglum okkur í sögu okkar, í sorg, í gleði, í áföllum og upprisu.
II.
Ég er uppalinn í Súðavík. Súðavík er ekki bara heimabær minn, heldur hluti af sjálfsmynd minni. Þar sleit ég barnsskónum í þeirri paradís sem Súðavík var fyrir ungan dreng.
Súðavík var vettvangur æskunnar – í litlu sjávarþorpi þar sem allir þekktust og höfðu einhver tengsl sín á milli. Ég fór ungur í nám til Reykjavíkur, í Stýrimannaskólann, með draum um að verða sjómaður eins og svo margir sem ég þekkti, m.a. faðir minn sem var sjómaður frá því að ég man eftir mér.
Ég starfaði við sjómennsku, lengst af í áhöfn Bessa, sem var einn fengsælasti togari landsins um tíma. Það voru gjöfulir tímar á sjónum, en þótt ég væri fjarri heimahögunum var eitt sem ávallt stóð upp úr:
Að sigla inn Ísafjarðardjúp, fylgjast með fjöllunum rísa tignarlega beggja vegna og sjá inn Álftafjörðinn og Súðavík birtast,
Samfélagið sem hafði mótað mig. Þegar ég sá þorpið, fylltist ég þeirri hlýju tilfinningu að vera kominn heim. Þarna var fólkið mitt. Fjölskyldan mín og vinirnir.
III.
Það var að kvöldi 15. janúar 1995 sem við á Bessanum vorum á leið í land í Súðavík, en veðurofsinn var svo mikill að ekki var talið öruggt að leggjast að bryggju og biðum við því fyrir utan Súðavík þar til að veðurofsan myndi lægja.
Einn af skipsfélögum mínum var Hafsteinn Númason, og fengum við fregnirnar snemma um morguninn 16. janúar, að stórt snjóflóð hefði fallið á miðja Súðavík. Biðin eftir nánari upplýsingum var ein sú lengsta
sem ég hef upplifað. Þegar við loks komumst í land, mætti okkur skelfileg sviðsmynd. Hús og heimili höfðu horfið undir snjóflóðið – og það sem verra var, mannslíf höfðu tapast. Það er á slíkum stundum sem það reynir hvað mest á manneskjuna – styrk hennar, seiglu og þol til að takast á við aðstæður sem virðast óraunverulegar, jafnvel óyfirstíganlegar.
Dagarnir á eftir voru mjög erfiðir. Það var ekki fyrr en smám saman kom í ljós hversu mörg mannslíf höfðu tapast að raunveruleikinn fór að síast inn. Súðavík hafði misst fjórtán manns sem voru tekin frá okkur allt of snemma og við tóku dagar og vikur sem reyndu mikið á alla.
Einn bjartasti punkturinn í þeirri miklu sorg sem fylgdi snjóflóðunum í Súðavík var ómetanlegt framlag björgunarsveita nærliggjandi byggða og annarra sem tóku þátt í björgunarstörfum. Heimamenn voru þeir
fyrstu til að hefja leit af þeim sem saknað var, og þegar björgunarsveitirnar mættu á vettvang, lögðu þær sig fram af óeigingirni og þrautseigju við mjög erfiðar og krefjandi aðstæður.
Við megum ekki gleyma því að harmleikurinn og náin tenging við sorgina höfðu djúp áhrif á marga sem tóku þátt í leit og björgun. Að horfa upp á eyðilegginguna og taka þátt í leitinni að þeim sem voru látnir eða fastir undir snjónum markaði spor í líf þeirra. Fyrir suma varð þetta atvik til þess að líf þeirra breyttist
að eilífu, það sem þau sáu og upplifðu í þessu stóra verkefni var bæði átakanlegt og ógleymanlegt. Með Björgunarsveitunum komu leitarhundar sem skiptu sköpum í leitinni að fólki sem var fast undir snjófarginu.
IV.
Ég minnist sérstaklega leitarhundsins Hnotu sem fann Lindu Rut frænku mína, þá fimm ára gamla, eftir að hún hafði legið grafin undir snjó og húsvegg í fimm klukkustundir.
Þegar hún var loksins dregin undan farginu, ósködduð, breiddist ólýsanlegur léttir um björgunarsvæðið. Það voru tár, faðmlög og von sem kviknaði á ný í hjörtum allra sem tóku þátt í björguninni.
Sú tilfinning, – vonin – minnir okkur á þann ótrúlega kraft sem býr í því að gefast aldrei upp, sama hversu
svart allt kann að virðast. Við getum líka þakkað fyrir þau 12 mannslíf sem björguðust úr snjóflóðinu, fólk sem átti afturkvæmt til fjölskyldna sinna. Seinna frétti ég að Linda Rut, hafi verið viss um að það væri Ómar frændi sem væri kominn til að bjarga henni. Það þótti mér vænt um.
Að hún hafi fundið öryggi í þeirri trú að ég, frændi hennar, væri kominn til að bjarga henni minnir mig enn í dag á mikilvægi trausts, þess að vera til staðar fyrir þá sem treysta á okkur.
Björgunarsveitirnar, þessar hetjur samfélagsins, sýndu okkur að í erfiðustu aðstæðum má alltaf finna von og hugrekki. Þeir sem leggja líf sitt í hættu fyrir aðra vinna ómetanlegt starf sem við megum aldrei taka sem sjálfsögðum hlut. Starf þeirra er sjálfboðið og það er skylda okkar sem samfélag að styðja við björgunarsveitirnar með öllum tiltækum ráðum.
Við verðum einnig að kenna komandi kynslóðum mikilvægi þessa starfs og að sýna þakklæti í verki, bæði með fjárhagslegum stuðningi við björgunarsveitir og slysavarnarfélög og með því að mæta þeim einstaklingum með djúpri virðingu og þakklæti fyrir þeirra fórnfúsu störf.
ekki aðeins áætlana, heldur
raunverulegra framkvæmda, með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.
Samstaðan sem reis í kjölfar harmleiksins í Súðavík minnir okkur á kraftinn sem býr í kærleika,
umhyggju og samkennd, gildi sem halda samfélögum saman.
Guð blessi minningu þeirra sem fórust í Súðavík og allra sem hafa látið lífið í snjóflóðum.
Megi minning þeirra lifa sem viðvörun og hvatning, að tryggja öryggi, styrkja böndin sem tengja okkur
saman og skapa framtíð þar sem líf og öryggi hvers manns er metið af fyllstu virðingu.
V.
Eftir snjóflóðin í Súðavík stóð samfélagið frammi fyrir stórri ákvörðun. Á íbúafundi sem haldinn var fljótlega eftir flóðin þurftu íbúar að ákveða hvort þeir vildu flytja frá Súðavík sem hafði verið heimili þeirra
eða byggja þar upp aftur á nýjum stað, innar í Álftafirði þar sem öryggið var tryggt.
Niðurstaðan var skýr: Langflestir Súðvíkingar kusu að byggja upp nýtt þorp á öruggum stað í Álftafirði og halda samfélaginu saman. Sumir kusu þó að flytja í burtu, finna sér annað heimili fjarri vestfirsku fjöllunum.
Ný Súðavík reis, þar sem kirkjan okkar og Súðavíkurskóli voru fyrir og voru nú orðin kjarni nýrrar byggðar.
Stuðningur kom úr öllum áttum, frá Rauða krossinum, stjórnvöldum, fyrirtækjum og jafnvel áhöfnum skipa. Jafnvel fólk og fyrirtæki annarra landa lögðu sitt af mörkum til að styðja samfélagið með framlögum í sjóðinn Samhugur í verki, sem hjálpaði þeim sem höfðu jafnvel misst allt sem þeir áttu, að hefja nýtt líf.
Sem dæmi gáfu frændur okkar í Færeyjum, rausnarlega upphæð sem var nýtt til að byggja nýjan leikskóla og hafði sú gjöf djúpstæð áhrif á samfélagið í Súðavík.
VI.
Eftir flóðið flutti ég suður í áframhaldandi nám og sneri baki við sjómennskunni sem ævistarfi. En Súðavík var mér alltaf hugleikin og kær, þorpið var órjúfanlegur hluti af sjálfsmynd minni, með öllum sínum minningum og tengslum sem mótuðu mig sem manneskju.
Það var síðan árið 2002, rúmum sjö árum eftir snjóflóðin, að mér bauðst að snúa aftur vestur og taka við
starfi sveitarstjóra Súðavíkurhrepps. Við konan mín, Laufey Þóra, ákváðum að taka áskoruninni og flytja með börnin okkar og bjuggum við þar í tólf góð ár.
Ég fékk þar einstakt tækifæri, sem ég er ævinlega þakklátur fyrir, að fá að taka þátt í því að halda áfram að byggja upp Súðavík á nýjum stað.
Súðavík hafði orðið tákn um seiglu og samstöðu, og árin okkar þar voru okkur dýrmæt og lærdómsrík. Þau ár skildu eftir sig ómetanlegar minningar og er reynsla sem hefur haft varanleg áhrif á mig og þá sýn sem ég hef á samfélög, samstöðu og uppbyggingu. Við búum í harðgerðu landi þar sem náttúruöflin eru bæði falleg en einnig oft hættuleg. Þetta hafa Íslendingar reynt á eigin skinni.
VII.
Súðavík er ekki eina byggðin sem hefur orðið fyrir mannskæðum snjóflóðum á síðustu 50 árum. Sama ár, og snjóflóð féll á Súðavík féll annað flóð í október á Flateyri þar sem 20 manns fórust. Árið 1983 féll snjóflóð á Patreksfjörð þar sem 4 fórust. Árið 1974 féll snjóflóð á Neskaupstað sem tók 12 mannslíf og fyrir aðeins tveimur árum síðan, árið 2023, varð Neskaupstaður aftur fyrir öðru snjóflóði. Það snjóflóð olli miklu tjóni á heimilum fólks, en það var mikið mildi að engin alvarleg slys urðu á fólki. Það er því sár staðreynd að 50 árum eftir að mannskæða flóðið árið 1974 hafa varnargarðar á Neskaupstað ekki verið kláraðir.
Það sama má segja um fleiri byggðir sem skilgreind hafa verið sem hættusvæði, þar sem framkvæmdum við varnargarða, átti að vera lokið árið 2010, en er enn ekki lokið! Af hverju? Vegna fjárhagslegra hindrana sem hafa tafið framkvæmdir.
VIII.
Við leggjum traust okkar á stjórnvöld, bæði ríki og sveitarfélög, að tryggja öryggi íbúa. Öryggi á heimilum
okkar er grundvallarréttur hvers manns. Það krefst ábyrgðar og aðgerða, ekki aðeins áætlana, heldur
raunverulegra framkvæmda, með hagsmuni íbúanna að leiðarljósi.
Samstaðan sem reis í kjölfar harmleiksins í Súðavík minnir okkur á kraftinn sem býr í kærleika, umhyggju og samkennd, gildi sem halda samfélögum saman.
Guð blessi minningu þeirra sem fórust í Súðavík og allra sem hafa látið lífið í snjóflóðum.
Megi minning þeirra lifa sem viðvörun og hvatning, að tryggja öryggi, styrkja böndin sem tengja okkur saman og skapa framtíð þar sem líf og öryggi hvers manns er metið af fyllstu virðingu.
Ómar Már Jónsson, fyrrv. sveitarstjóri Súðavíkurhrepps