Hreppsnefnd Árneshrepps samþykkti á fundi sínum síðastliðinn föstudag að auglýsa tillögur að breytingu á deiliskipulagi vegna undirbúningsframkvæmda við Hvalárvirkjun. Umsagnarfrestur er sex vikur. Deiliskipulagsbreytingin lýtur að undirbúningsframkvæmdum vegna virkjunarinnar, sem eru slóðagerð, athugun á fyrirhuguðum efnisnámum, rannsóknarboranir á byggingarsvæðum stíflna og annarra mannvirkja, auk staðsetningar vinnubúða. Að umsagnartíma loknum verður sótt um framkvæmdaleyfi.
Vesturverk ehf segir á vefsíðu sinni að deilur vegna landamerkja jarða á Ófeigsfjarðarheiði eru nú til meðferðar hjá Hæstarétti. Málsmeðferðartíminn kunni að seinka upphafi framkvæmda auk þess sem úrslit málsins geti haft áhrif á tilhögun virkjunarinnar. Bæði Héraðsdómur Vestfjarða og Landsréttur hafa hafnað öllum landakröfum hluta eiganda jarðarinnar Drangavíkur á hendur jörðunum Ófeigsfirði og Engjanesi og þar með staðfest gildi samninga sem eru forsenda Hvalárvirkjunar.
Undirbúningur gengur vel
Vesturverk ehf segi að undirbúningur virkjunarframkvæmda gangi vel en verið er að skoða ýmsar útfærslur nánar og gera þær tilbúnar til verkhönnunar. Samhliða hefur verið unnið að skipulagsmálum fyrir virkjunarframkvæmdir og tengilögn virkjunar í samvinnu við Landsnet. Fullt tillit verður tekið til minjarannsókna sem VesturVerk stóð fyrir eftir að síðasta skipulag var samþykkt. Rýni á hönnun og verkskipulagi hefur staðið yfir og áfram verði unnið að betrumbótum á verkefninu ásamt því að finna hagkvæmar lausnir og útfæra mannvirki þannig að þau falli vel að landi.
Forsendur staðsetningar vinnubúða liggja fyrir og greiningu á valkostum er lokið. Vinnubúðirnar verða staðsettar við aðkomugöng stöðvarhúss en sú staðsetning heldur daglegri umferð starfsfólks í lágmarki og takmarkar afnot af landi undir mannvirki.
Viðræður standa yfir við framleiðendur vél-, raf- og stjórnbúnaðar til að undirbúa innkaup. Langur afgreiðslutími er á þessum búnaði og er tíminn jafnvel talinn í árum.
Flutningsleiðir til skoðunar
Til skoðunar er hvernig best verður staðið að flutningi þyngstu eininga á virkjunarstað svo sem rafspenna, aflvéla og rafala. Ýmsar leiðir eru til skoðunar og má þar nefna flutning á hafi með landtöku í Ófeigsfirði, flutning um hafnaraðstöðu á svæðinu og vegleið þaðan að verkstað og flutning landleiðina um Strandaveg til Ófeigsfjarðar. Fundað hefur verið með sérfræðingum um flutninga á sjó og fulltrúum Vegagerðarinnar um ástand Strandavegar. Fyrir liggur hvar þarf helst að bæta úr og lagfæra vegstæði svo hægt yrði að flytja þyngstu virkjunarhlutana. Ekki síður skiptir máli að tímasetja flutninga rétt gagnvart færð á vegum fyrir landflutninga og sjólagi við flutninga á hafi og uppskipun.
Góð heildareinkunn í sjálfbærnimati
Fullt HSS mat (Hydropower Sustainability Standard) á undirbúningsstigi Hvalárvirkjunar fór fram í haust. Hópur óháðra matsaðila á vegum Hydropower Sustainability Alliance dvaldi á landinu í september og átti fundi með ólíkum hagaðilum, jafnt í Árneshreppi sem víðar á Vestfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu.
Nú liggur fyrir frumskýrsla um helstu niðurstöður þar sem farið er faglega yfir álitamál verkefnisins og þau metin út frá ólíkum sjálfbærniþáttum. Undirbúningur Hvalárvirkjunar fær góða heildareinkunn í skýrslunni en þar er jafnframt bent á atriði sem mikilvægt er að huga betur að í næstu skrefum undirbúnings.
VesturVerk fær sex mánuði til að bregðast við ábendingum og athugasemdum sem fram koma í skýrslunni en í kjölfarið er gert ráð fyrir að kynna niðurstöður matsins í opnu kynningarferli.