Hin árlega garðfuglahelgi að vetri verður 24.-27. janúar, frá föstudegi og fram á mánudag.
Um er að ræða helgi þegar fuglaáhugafólk um land allt telur fuglategundir í görðum. Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakendur þurfa að gera er að fylgjast með garði í einn klukkutíma einn dag.
Fjórir dagar koma til greina og athugendur velja hvaða dag þeir fylgjast með garðfuglum eftir veðri og aðstæðum. Það þarf ekki endilega að eiga garð til að gefa fóður og telja fugla í heldur er hægt að koma sér fyrir í almenningsgarði en slíkir eru víða í sveitarfélögum landsins.
Þátttakendur skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og talningin miðar við þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir. T.d. má ekki leggja saman fuglafjölda sem sást kl. 13 og þann sem sást kl. 13.30 heldur ber að nota hærri töluna. Þetta er til að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn svo hann verði skráður sem 1 fugl en ekki 4. Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður rafrænt á vef Fuglaverndar.
Ef fuglunum er ekki gefið reglulega þá er gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að gefa daglega til að laða fugla að. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund en upplýsingar um það er að finna á framangreindri heimasíðu Fuglaverndar.
Fuglavernd eru frjáls félagasamtök um verndun fugla og búsvæða þeirra. Fuglavernd telur um 1300 félagsmenn.