Í pistli sem birtist á dögunum hér á BB rak ég ýmsar fréttir síðustu árs sem mér fannst rétt að rifja upp. En hvað ber nýtt ár í skauti sér?
Á vettvangi Ísafjarðarbæjar fer nú í hönd síðasta heila ár kjörtímabilsins. Nú þegar tímafrekt Suðurtangaskipulag er tilbúið, vonum við að fyrirtæki sem vilja byggja þar hefji sem fyrst framkvæmdir. Þar lítum við til Kerecis, HG/Háafells og Þryms, sem öll hyggja á stórtækar byggingar.
Skipulagsmegin verður áhersla Ísafjarðarbæjar á miðbæjarskipulagið. Þar erum við komin að ákveðnum krossgötum við að ákveða framtíð hafnarinnar, íbúðabyggðar, legu Pollgötu og framtíð sjóvarna. Mikil undirbúningsvinna hefur átt sér stað en íbúasamráð þarf að fara fram nú snemmvetrar til að geta haldið áfram þessum pælingum. Hér er jafnvægiskúnstin að skoða málin heildstætt og vel, en samt gleyma sér ekki í of tímafrekri vinnu að ekkert potast áfram. Þær hugmyndir sem komið hafa fram eru margar áhugaverðar en stundum innbyrðis ósamrýmanlegar, svo góð umræða er lykilatriði til að sátt skapist.
Árið 2025 er afmælisár. Safnahúsið var byggt sem sjúkrahús fyrir 100 árum, og í ár lýkur umfangsmiklum viðhaldsverkefnum þar, sem einkum hafa snúið að kjallara. Skíðasvæðið í Tungudal er 30 ára og þangað fara talsverðir fjármunir við endurnýjun lyftumannvirkja, en auk þess fara stórir peningar í tjaldsvæði á Þingeyri, fjárgirðingar, viðhald gatna og margt fleira.
Nú þegar fótboltavöllurinn á Torfnesi er að mestu klár, færist fókus í fjárfestingum yfir á slökkvistöð sem byggja á á Suðurtanga. Stefnt er að því að hanna og steypa plötu nýs húss í ár. Hafnarsjóður stendur áfram í stórræðum og mun leggja torg og stæði fyrir rútur, og eftir því sem færi gefst leggja göngustíga og stuðla að öruggi gangandi skipafarþega. Áfram halda framkvæmdir við fráveitu og verður lokið við hreinsimannvirki á Suðureyri og Þingeyri, en þegar hefur verið gengið frá þeim á Flateyri. Með stórum Evrópustyrk verður svo hægt að byrja á úrbótum í Skutulsfirði, en það er að minnsta kosti sex ára verkefni.
Á Vestfjarðavísu heldur innleiðing nýrrar sóknaráætlunar áfram. Vinna við svæðisskipulag heldur áfram og mun vonandi taka mikla athygli sveitarstjórnarfulltrúa á árinu. Áhersla verður á framleiðslugreinar sem undirstöðu hagsældar og byggðafestu á svæðinu.
Auk þess bíðum við spennt frétta af ýmsum málum sem varða fjórðunginn. Til dæmis er unnið að samfélagsgreiningu á mögulegri virkjun í Vatnsfirði, frétta er að vænta af Hvalárvirkjun, nýtt áhættumat erfðablöndunar í laxeldi kemur væntanlega fram og Alþingi mun vonandi taka til meðferðar ýmis mál sem hafa þurft að bíða vegna pólitísks óróa. Þar má helst nefna lagareldi og málefni jöfnunarsjóðs.
Gylfi Ólafsson
formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar