Árbók Barðastrandarsýslu 2024 er komin út. Árbókin hóf göngu sína 1948. Daníel Hansen er ritstjóri og aðrir í ritnefnd eru Jónína Hafsteinsdóttir, Ólafur B. Thoroddsen, Gísli Már Gíslason og Haraldur Þorsteinsson. Útgefandi er Sögufélag Barðastrandarsýslu. Formaður þess er Egill Össurarson.
Daníel hefur verið ritstjóri síðustu 20 árin og er þessi árbók sú síðasta sem hann ritstýrir.
Í árbókinni er fjölbreytt efni. Hæst ber þó umfjöllun um Sjöundarármálið sem enn lifandi í umfjöllun þótt liðin séu liðlega 200 ár frá málaferlunum. Gísli Már Gíslason segir frá umfjöllun Lögfræðingafélags Íslands um Sjöundarármálin sem fram fór á Patreksfirði í mái 2022 eftir vettvangsskoðun. Þar var farið yfir málin frá margvíslegu sjónarhorni. Guðrún Sesselja Arnardóttir taldi að búið hafi verið að ákveða sekt Bjarna og Steinunnar fyrirfram.
Steinunn Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur skrifar um dauðadóm þeirra og greinir frá bók sinni um það efni sem kom út um jólin. Hún segir að efast megi stórlega um að nokkur hafi verið drepinn að Sjöundá. Virðingarleysi yfirvalda gagnvart Bjarna sem sakborningi sé algert. Steinunn minnir á að fram hafi komið að dómabók og afriti af henni beri ekki saman. Munurinn sé það mikill að taka megi um fölsun.
Fleira gott efni er í bókinni. Má þar nefna að minnst er hagyrðingsins Hjartar Þórarinssonar frá Miðhúsum í Reykhólasveit, sem lést á síðasta ári 97 ára að aldri. Kom hann lengi fram og skemmti með frumsömdu efni á hagyrðingakvöldum Barðstrendingafélagsins