Anna Sigríður í Vísindaporti

Í Vísindaporti vikunnar mun Anna Sigríður Ólafsdóttir, eða bara Annska, segja frá meistaraverkefni sínu í menningarmiðlum við Háskóla Íslands. Verkefnið ber heitið: Ég vil að þú vitir – Ferðalag höfundar um gatnamót listmiðaðra rannsókna og bókarskrifa. Í menningarmiðlun eru lokaverkefni tvískipt; miðlunarhluti og rannsóknarhluti. Sem aðferðafræði valdi hún nýstárlegar leiðir hér á landi, listmiðaðar rannsóknir (Arts-based research) og sjálfsþjóðfræði (Autoethnography).

Miðlunarhlutinn eru bókardrög sem byggja á viðtölum við sex konur sem tala til 18 ára gamalla sjálfra sín og gefa sér ráð fyrir lífið byggt á því sem lifað líf hefur kennt þeim.

Uppsetning bókarinnar er með þeim hætti að umræðuefnin skapa kafla hennar og er textinn frá konunum ofinn saman í textaheild svo úr verður samfelldur viskukór kvenna.

Í lokaritgerðinni er ferlið við gerð bókartextans rakið, fjallað um hvernig megi vinna gilda rannsókn sem birtir niðurstöður með þessum hætti.

Fjallað er um listmiðaðar rannsóknir sem hafa verið að sækja í sig veðrið sem rannsóknaraðferð undanfarna áratugi og sannsöguna sem aðferð til birtingar á rannsóknargögnum. Þá er tekið á því hvernig skrifa má lokaritgerð undir formerkjum sjálfsþjóðfræðinnar með skapandi texta fremur en á fastmótuðu fræðamáli.

Annska starfar sem verkefnastjóri miðlunar hjá Vestfjarðastofu. Hún er með BA-gráðu í nútímafræði frá Háskólanum á Akureyri og MA-gráðu í menningarmiðlun frá Háskóla Íslands, auk þess að hafa stundað nám í ferðamálafræði við Háskólann á Hólum. Hún er einnig með réttindi sem 5Rytma kennari og endalaust forvitin um hvað lætur manneskjur tifa.

Erindið fer fram á kaffistofu Háskólaseturs Vestfjarða föstudaginn 24 janúar og hefst kl. 12.10. Erindinu er einnig streymt.

DEILA