Látinn er Arnar Geir Hinriksson, lögfræðingur frá Ísafirði. Hann lést af slysförum í gær.
Arnar Geir var fæddur 1939 á Ísafirði. Foreldrar hans voru Hinrik Guðmundsson og Elisabet Hálfdánardóttir. Ólst hann upp á Eyrinni og var mörg sumur í sveit hjá Ágúst móðurbróður sínum sem bjó á Eyri við Seyðisfjörð. Að loknu landsprófi í skóla Hannibals Valdimarssonar fór hann í Menntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan. Síðan lá leiðin í Háskóla Íslands og lauk hann embættisprófi í lögfræði 1966.
1974 sneri Arnar Geir aftur vestur fyrst um sinn sem háseti á Páli Pálssyni ÍS en opnaði svo lögfræðistofu á Ísafirði og rak hana um langt árabil.
Árið 2006 um páskana varð hann fyrir slysi á skíðum á Ísafirði og lamaðist. Bjó hann eftir það fyrir sunnan.
Arnar var árum saman í hópi bestu bridgespilara á Vestfjörðum og keppti í bridge ásamt Einari Val Kristjánssyni á fjölmörgum mótum. Arnar varð Íslandsmeistari í einmenningi 1996.