Ég er kölluð Sigga Júlla, er fædd á Akureyri 18.febrúar 1974 og er dóttir hjónanna Önnu Árnínu Stefánsdóttur leikskólakennara og Brynleifs Gísla Siglaugssonar ketil-og plötusmiðs. Ég er elst í fjögurra systkina hópi. Fyrstu árin bjuggum við á Akureyri eða til 1979 þegar mamma og pabbi ákváðu að láta draum sinn rætast og flytja í sveit. Þetta var þó engin venjuleg sveit í þeim skilningi þar sem við fluttum í Vaglaskóg. Það var ævintýri líkast að fá að alast upp í skógi, það voru líka forréttindi að fá að alast upp í því samfélagi sem þarna var. Mér finnst þetta hafa mótað mig mikið, bæði hvað snýr að því fagi sem ég menntaði mig í síðar og eins hvernig ég lít á lífið tilveruna. Að alast upp í litlu og afskektu samfélagi þar sem hver einstaklingur skiptir svo ótrúlega miklu máli, eða maður finnur meira fyrir því í minna samfélagi hvað hver og einn skiptir miklu máli.
Mínar æskuminningar snúast um spilakvöld á vetrum, þar sem fólk kom saman og spilaði, það skipti ekki máli hvort maður var 8 eða 80 ára, það mættu bara allir. Sama átti við um messur, jólatréskemmtanir, ungmennafélagsmót osfrv.
Ungmennafélagið var stór partur af fjölskyldulífinu, það var gefið út blað, það voru æfingar á sumrin á Bjarmavelli og svo fór maður á mót. Ég man hvað ég kveið alltaf fyrir því að keppa, það var kvöl og pína en maður lét sig hafa það og kom svo sigri hrósandi heim. Stolt yfir verðlaunapeningi en þó alltaf stoltust yfir að hafa farið og tekið þátt.
Ég gekk í Stórutjarnarskóla, fór með skólabíl þrjá daga í viku í skólann þar til ég varð tíu ára, þá fór ég í heimavist. Það var alveg ofsalega gaman og ég man ekki eftir því að mér hafi þótt það erfitt.
Það urðu straumhvörf þegar ég var 14 ára þegar foreldrar mínir ákváðu að halda áfram að elta drauma sína og hætta að vera leiguliðar hjá ríkinu og kaupa jörð. Við fluttum í Skagafjörð, Dalsmynni í Hjaltadal þar sem þau ráku kúabú um árabil. Foreldrar mínir eru hætt búskap en byggðu sér hús á lóð á jörðinni sem þau kalla Steinhóla. Þau eru jafnframt skógarbændur á jörðinni Hringver, með um 180 ha skóg sem þau hafa gróðursett. Nú þegar eru þau farin að nytja skóginn og grisja, framleiða girðingastaura og kurl auk þess að tína yfir hundrað kíló af sveppum til þurrkunar ár hvert.
Nám og störf
Ég er búfræðingur frá Hvanneyri og fór einnig í háskólanám þar, kláraði Bs gráðu í landnýtingu.
Þegar ég var 14 ára fór ég að vinna hjá Skógræktinni í Vaglaskógi. Mörgum árum síðar, þegar ég var í námi á Hvanneyri, fór ég að vinna í sumarvinnu hjá Skógrækt ríkisins á Vesturlandi en eftir háskólanám hóf ég störf sem ráðgjafi hjá Vesturlandsskógum. Þegar ég var búin að starfa þar í fjögur ár fluttum við til Noregs þar sem ég fór í nám í skógfræði við norska lífvísindaháskólann að Ås þar sem ég lauk Ms gráðu. Þetta var æðislegur tími á margan hátt en líka erfiður. Tíminn leið hratt og allt í einu voru tvö ár liðin, við fluttum aftur heim og settumst að í Borgarnesi. Ég, fyrrverandi maður minn og synirnir Stefán Snær f. 1996 og Þórður Logi f. 2005.
Fyrstu árin eftir heimkomuna starfaði ég sem héraðsfulltrúi Landgræðslunnar á Vesturlandi og Vestfjörðum. Árið 2013 varð ég framkvæmdastjóri Vesturlandskóga. Það var góð reynsla sem fleytti mér svo áfram og kom sér vel þegar sameining landshlutaverkefna í skógrækt (Vesturlandsskóga þar á meðal) og Skógræktar ríkisins átti sér stað árið 2016. Þá varð til Skógræktin og ég fékk starf sem sviðsstjóri innan nýrrar stofnunar. Það var mikil áskorun að takast á við að vinna að þeirri sameiningu en það tókst að mínu mati vel og er þar mest að þakka því fólki sem vann hjá Skógræktinni, samtakamátturinn var mikill. Ég kynntist fullt af frábæru fólki um land allt á þessum árum. Skrifstofan mín var á Hvanneyri en ég var mikið á ferðinni þar sem ég var með starfsfólk í öllum landshlutum og í framkvæmdarráði Skógræktarinnar. Þá fékk ég tækifæri til að taka þátt í samstarfsverkefnum erlendis, bæði Evrópskum sem og Norrænum.
…og ég á vesturleiðinni!
Árið 2018 var mjög skrítið ár hjá mér, ár mikilla breytinga og nýs upphafs. Það byrjaði á þann hátt að ég tók sæti í sveitarstjórn Borgarbyggðar í janúarbyrjun. Ég hafði verið varasveitarstjórnarfulltrúi frá því í kosningunum 2014. Ég hafði jafnframt verið varamaður í byggðarráði, aðalfulltrúi í skipulags- og umhverfisnefnd og sat auk þess í stjórn Brákarhlíðar (hjúkrunar-og dvalarheimili í Borgarnesi). Ég var véluð til að taka annað sæti á lista VG í sveitarstjórnarkosningum sem fara átti fram þetta vor, en oddiviti listans var Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir. Fyrir hafði VG verið með einn mann í sveitarstjórn (kjörtímabil 2014-2018). Í stuttu máli þá fór þetta þannig að við náðum inn tveimur fulltrúum. Á sama tíma hitti ég manninn sem ég er gift í dag. Skrítið. Til að gera langa, flókna, sögu stutta þá tók ég ákvörðun að flytja til hans vorið 2019. Ég sagði mig úr sveitarstjórn. Ég leigði íbúðina mína og flutti með starfið mitt í bakpokanum vestur á Ísafjörð.
Maðurinn minn heitir Steinþór Bjarni Kristjánsson, hann er borinn og barnfæddur Önfirðingur. Hann á fjögur börn og tvær stjúpdætur. Þannig að það má segja að með mínum sonum er hópurinn átta stykki á aldrinum 15-39 ára.
Við tókum þá ákvörðun að flytja saman á æskuheimili hans að Hjarðardal ytri í Önundarfirði en síðan breyttust aðstæður og nú búum við að staðaldri á Suðureyri en eigum okkar afdrep í Hjarðardal ytri.
Áhugamálin
Ég er fyrst og fremst náttúrubarn, sveitastelpa og veit ekki um betri stað til að safna orku en úti í náttúrunni, hvort sem það er skógur, fjall eða fjara. Útivist ýmiskonar m.a. eins og hlaup, gönguferðir og gönguskíði (sem ég er nú ekkert sérlega góð í) teljast til áhugamála. Ræktun, hvort sem það eru matjurtir, blóm eða tré telst einnig til áhugamála. Þá finnst mér líka gaman að sauma þjóðbúninga og prjóna. Ég slaka best á ef ég sit með prjónana, hlusta á sögu eða horfi á línulega dagskrá.
Lýðskólinn
Í desember 2022 hóf ég störf hjá Lýðskólanum á Flateyri. Það var stór ákvörðun að taka. Eftir um tuttugu ára starf í skógræktargeiranum að skipta algjörlega um gír, og rækta fólk í stað skóga. Fyrst sinnti ég starfi kennslustjóra og síðar skólastjóra. Í litlum skóla virka hlutirnir þannig að þú þarft að grípa þá bolta sem eru á lofti (úr óvæntum áttum jafnvel), vera fljót að hugsa, redda málum ef eitthvað er. Að vinna að nýjum hugmyndum, þróa verkefni, vinna með samfélaginu. Í svona aðstæðum þrífst ég vel.
Mér finnst gaman að stjórna (þarna eru systkini mín sammála) og ég held ég sé alveg ágæt í því. Það er sjaldnast þannig að „venjulegur“ dagur fari eins og ég hef gert áætlanir um. Það er nefnilega þetta mannlega í starfinu sem verður til þess að maður verður að vera sveigjanlegur en samt halda sig innan ramma. Það er mikilvægt að stjórnendur séu til staðar, vera tilbúin til að hlusta, eiga samtal.
Bæjarstjórnin
Mér þykir mikilvægt að vinna fyrir samfélagið á einhvern hátt. Engir tveir gera það eins. Mín leið er í gegnum bæjarstjórnarmálin. Ég tók 4. sæti á lista Í listans fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar, við náðum fimm kjörnum fulltrúum og þá meirihluta í bæjarstjórn. Það er mjög gefandi að taka þátt í slíku starfi, vissulegra heilmikil vinna þar að baki en það er allavega mín leið til að vinna að framfaramálum í því samfélagi sem ég bý í. Þó ég hafi búið í Önundarfirði og nú á Suðureyri þá er ég að hugsa um stóru myndina hér í Ísafjarðarbæ, hvað kemur íbúum vel sem hér búa, ég vinn að framfaramálum fyrir svæðið í heild. Ég hef gengt embætti forseta bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar og verið formaður í skipulags- og mannvirkjanefnd þetta kjörtímabil, þar til nú. Þessi verkefni hafa orðið til þess að ég hef fengið tækifæri til að kynnast svæðinu enn betur en ella, sem og öllu því góða fólki sem hér býr. Þá má ég til með að nefna eitt verkefni sem sveitarfélög á Vestfjörðum vinna nú að í sameiningu en það er Svæðisskipulag Vestfjarða. Ég er varaformaður í þeirri nefnd sem heldur utan um það mikilvæga verkefni en það er hagsmunamál okkar allra að Vestfirðingar sameinist um „stóru strokurnar“ í gerð skipulags fyrir Vestfirði en þar er tekið á ýmsum stórum sameiginlegum málum sem snúa t.d. að samgöngum, orkuflutningum, fjarskiptum og umhverfismálum. Þetta er eitt af mörgum verkefnum sem ég brenn fyrir.
Ég hlakka mikið til 7.janúar næstkomandi þegar ég mæti í vinnu á bæjarskrifstofunni, að kynnast öllu fólkinu og fá að vinna að framgangi Ísafjarðarbæjar með öllum íbúum.
P.s. Játning
Ég hef aldrei unnið í fiski. Kann ekki einu sinni að flaka fisk (en get nú samt bjargað mér ef í nauðirnar ræki).
En ég hef unnið á sláturhúsi, við allskonar landbúnaðarstörf, skógarumhirðu, leikskóla, búð, sambýli, gróðrarstöð, ræstitækni, já allskonar.
Hef reyndar farið í siglingu á togara til Hull og sá þá um að elda á leiðinni út, sleppur það?