Viðtal vikunnar er við aðkomumanninn, sem aldrei sótti um en var samt æviráðinn.
Við Kristín Torfadóttir vorum nýgift og á tjaldferðalagi um Vestfirði í ágúst 1991. Himinninn grét því það hellirigndi. Við tjölduðum með hálfum huga inni í Tungudal. Síðan datt okkur í hug að reyna að sníkja kaffi. Við bönkuðum upp á í Mjógötu 3. Þar var enginn. Þessu næst ákváðum við að heilsa upp á sóknarprestinn, sr. Karl Valgarð Matthíasson og Sesselju konu hans. En þar var heldur enginn. Göturnar virtust auðar og það var eins og enginn væri lengur í vestrinu. Af gamalli reynslu þóttist ég vita hvar Mánakaffi væri og hugði að þær væri hægt að kaupa sér kaffi og orna sér ögn. Ég spurði vertinn hvort hann vissi hvort presturin, sr. Karl væri heima. Maðurinn horfði á mig yfir kaffireykinn og það var greinilegt að ég var aðkomumaður, sem fátt vissi. Svo sagði hann hægt og rólega: “Hér er enginn prestur. Við erum svo ömulegt fólk að hér vill enginn vera. Það var auglýst og enginn sótti um”. “Prýðilegt að heyra”, sagði ég, “ég er prestslærður, þetta virðist vera staður fyrir mig.” Þannig hófst ævintýri mitt fyrir vestan og stendur enn.
Það kom svo fljótlega í ljós að á Ísafirði bjó yndislegt fólk með gott hjartalag. Og var mér strax vel tekið. Þegar ég fór að undirbúa mína fyrstu jarðarför þá horfði ekkja hins látna á mig og sagði svo: “Almáttugur, presturinn er bara barn!” Ég var að vísu vanur svo athugasemdum frá dyravörðum við bíódyr enda ég var lengi vel afar barnalegur og andlitið slétt sem barnsrass svo greinilegt var að þarna fór maður með svo til enga lífsreynslu. Þegar ég hafði kynnt mig betur þá sagði sonur ekkjunnar að síðast þegar hann hefði séð mig þá hefði ég verið með kúrekahatt og skotið á hann með knallettubyssu.
Svona hófst nú mín prestsþjónusta fyrir um 33 árum síðan. Og þótt ég hefði í minni fyrstu altarisgöngu tekið hann Gunnlaug Jónasson tvisvar til altaris, – en í þá daga bergðu menn af bikarnum og notað var sem messuvín sherrý eða púrtvín, þá hefur fólkið í söfnuðinum umborið mig og raunar stutt mig í blíðu og stríðu. Og er ég ekki frá því að ég hafi vaxið ögn í stafi og af visku. Allavega eru komnar nokkrar hrukkur á andlitið en það er samt aðallega vegna þess hversu oft ég hlæ og flissa.
Preststarfið er ólíkt öllum öðrum störfum. Þetta er eina starfið þar sem á borðinu fyrir fram prestinn eru þrjár þykkar bækur, brauð og vín og kveikt er á kertum. Ég haf alltaf elskað bækur, notið þess að handfjatla þær og lesa og hugsa um það, sem ég les. Starf prestsins er fólgið í því að predika og leggja út af texta Biblíunnar. Svo biður hann fyrir fólkinu og þjónar því. Prestur þarf líka að vera duglegur að hlutsta þegar fólk vill við hann tala, létta á sér með því að ræða um andsreymi lífsins eða sækja ráð til prestsins.
Þú spyrð um eftirminnilegustu messuna. Eitt sitt fór ég með honum Hagalín Ragúelssyni yfir Djúpið. Við tókum land á Tyrðilmýri. Þar féll ég niður um op á bryggjunni, rak höfuðið í járnbút og féll rotaður á bólakaf í sjóinn. Hagalín brjargaði lífi mín og dró mig upp á þurtt land, – ekki í fyrsta og eina sinn, sem sóknarbörnin hafa bjargað mér í háska. Ég fór svo heim til bóndans í Unaðsdal og fékk þar þurr föt, jogging buxur og háskólabol. Húsfreyjan setti plástur á stórt sár á höfðinu. Síðan gekk ég til kirkju. Einn af textum þessa sunnudags fjallaði um dýrið í Opinberunarbókinni, – en ég gerði einmitt kandidatsritgerð um túlkun þeirrar bókar, og hafði ég samið snjalla predikun um dýrið í Opinberundarbókinni og baráttu þess við konuna og barnið og engla himinsins. Og svo gerðist það þegar ég fór að syngja sálma og tóna messusvörin að sárið á höfðinu opnaðist og blóð fór að leka niður kinnina á hvítan pípukragann. En ég hætti samt ekki að syngja. Meðhjálparinn hljóp um kirkjuna og fékk hvíta klúta hjá kvinnunum og svo reyndi hann jafnóðum að þurrka blóðtauminn, sem lak úr undinni. Þrisvar fór meðhjálparinn upp í predikunarstólinn til að þurrka vangann meðan ég predikaði. Og svo var altarisganga. Og líkt og oftast er í Unaðsdalskirkju þá gengu flestir til altaris. Þetta var eftirminnileg messa.
Þú spyrð um áhugamál. Ég les bækur og hlusta á sígilda tónlist. Svo horfi ég á vestrabíómyndir. Á kóvíð-tímanum komst ég upp á það að horfa á Netflex og Youtube. Ég horfði á þættina The Bib Bang Theory og svo komst ég að því að hægt var að horfa á fyrirlestra í guðfræði, sagnfræði og heimspeki á netinu frá þekktustu háskólum Bandaríkjanna. Eftir það var ekki aftur snúið. Og nú er ég mikill skjááhugamaður, – það er ódýrara en að kaupa bækur á netinu.
Það er sagt að algórythminn á Fasbókinni þekki áhugamál manns betur en maður sjálfur. Kannski er eitthvað til í þessu. En alla vega birtast í sífellu á Fasbókinni hjá mér vídeóklippur af seglskútum og páfagaukum. Því miður á ég ekki lengur seglskútu og er þar komin ástæðan fyrir því að ég hef elst og hárið gránað. En það er þannig að undir seglum eldist maður ekki. Og um daginn dó hún Dúlla mín, ástarfuglinn, sem fylgdi mér í í 17 ár. Hún sat stundum á öxlinni á mér þegar ég rakaði mig á morgnana. Og oft sat hún á öxlinni minni og við horfum saman á sjónvarpið. Þegar við horfðum á ensku knattspyrnuna þá poppaði ég og lét alltaf í litla skál fyrir hana Dúllu. Hún var hrifin af poppkorni og steinselju en best þótti henni samt að fá sólblómafræ. En nú er Dúlla öll og ég jarðaði hana undir grenitrjánum heima.
Þannig er lífið. Allt tekur enda um síðir. Og þótt ég hafi verið allra presta yngstur þegar ég kom hingað vestur þá á ég ekki eftir nema fimm ár í sjötugt og þá mun ég pakka saman og halda á vit nýrra ævintýra, – líkt og kúreki, sem ríður inn í sólarlagið og hverfur á brott í rykmekki.