Vikuviðtalið: Jónas B. Guðmundsson

Ég gegni embætti sýslumanns á Vestfjörðum og finnst við hæfi að fjalla svolítið um starf mitt og embættið nú þegar 10 ár eru að verða liðin frá því að það hóf starfsemi 1. janúar 2015.  Sama dag hóf starfsemi sérstakt embætti lögreglustjóra á Vestfjörðum.

Áður hafði ég verið býsna lengi í Bolungarvík, fyrst sem bæjargfógeti skipaður 1. september 1990 en 1. júlí 1991 var heiti embættisins breytt í sýslumaður.  Þá voru fjögur embætti sýslumanna á Vestfjörðum og 26 á landinu öllu, sem jafnframt sinntu öll lögreglustjórn nema í Reykjavík og þá voru sýslumenn og bæjarfógetar utan Reykjavíkur einnig dómarar allt til 1989.

Ég útskrifaðist úr lagadeild Háskóla Íslands 1986, sem þá var eini háskólinn sem útskrifaði lögfræðinga, en nú eru þeir fjórir.  Að útskrift lokinni gerðist ég fulltrúi Sýslumannsins  í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og bæjarfógetans í Ólafsvík (lengri gerast titlarnir varla) með aðsetur í Stykkishólmi.  Þaðan fór ég í fyrsta skipti til Vestfjarða þegar mér bauðst að gerast bæjarfógeti í Bolungarvík og átti ekki von á öðru en stuttum stans þar.

Svo fór þó alls ekki því árin í Víkinni urðu rúmlega 24. Ég kom þangað einhleypur 32 ára en það breyttist  fljótt og hef ég verið kvæntur í önnur 32 ár.  Sjálfsagt finnst mörgum, ekki síst  í Bolungarvík, löngu nóg komið en ég get huggað þá með því að óhjákvæmilega styttist nú í annan endann eða mesta lagi þrjú og hálft ár að ég kemst á nýjan áratug.  Hver veit nema það gæti orðið eitthvað fyrr.  Mér hefur alltaf liðið vel í mínu starfi þótt oft sé það erilsamt og vinnudagar geti verið langir og ekkert sérstakt af minni hálfu ýtt á að ég breytti til eða skipti um starfsvettvang.  Ég hef reynt að fylgjast með, sótt námskeið og endurmenntun og leitast við að tileinka mér allar nýjungar sem fylgja starfinu.

Þó verkefnin hafi í grunninn ekki breyt mikið á þessum bráðum 35 árum nema hvað lögreglustjórn fluttist frá minnstu sýslumannsembættunum árið 2010 til stærri embætta hefur tækninni fleygt mjög fram og allt skráð og gert í tölvum sem áður var fært til bókar, netið alls ráðandi og pappír að mestu horfinn.

Mikil samvinna er nú milli embætta sýslumanna, sem eru níu að tölu, sýslumenn hittast vikulega á fjarfundum og bera saman bækur sínar.  Raunar eru sýslumenn ekki nema sex sem stendur þar sem aðliggjandi sýslumenn hafa veri settir tímabundið  yfir nærliggjandi embætti þegar sýslumenn þar hafa látið af störfum.  Flesta þjónustu sýslumanna er nú hægt að sækja stafrænt og held ég að segja megi að embættin séu  einna fremst stofnana í stafrænni þjónustu.
Talsvert hefur verið rætt um að sameina öll embættin í eitt embætti og er það tæknilega vel mögulegt en að ýmsu er að hyggja við útfærslu á slíku, nauðsynlegt að vanda til verka og flýta sér hægt.

Í dag eru 15 starfsmenn við embættið í rúmlega 13 stöðugildum á þremur starfsstövðum, þ.e. Patreksfirði, Hólmavík og Ísafirði. 13 konur og tveir karlar. 

Um áramótin bætist svo við nýtt verkefni sem felur í sér að hafa umsjón með sjóðum og stofnunum samkvæmt sérstökum skipulagsskrám, fylgja eftir að þessir aðilar skili inn ársreikningum sem mikill misbrestur hefur verið á og leggja á sektir ef útaf er brugðið allt á grundvelli nýrra laga þar um.  Þá ber embættinu frá sama tíma og á grundvelli nýrra laga sem taka gildi um áramót að hafa umsjón með trú- og lífsskoðunarfélögum og fylgjast með að fyrirkomulag þeirra og ársreikningaskil sé lögum samkvæmt og leggja á sekt ef útaf er brugðið. Áformað er að þessu verkefni verði að meginstefnu til sinnt á skrifstofunni á Patreksfirði og þar verði a.m.k. eitt og hálft stöðugildi sem sinni þessu.

Kemur þá að áhugamálunum, sem raunar eru frekar fátækleg.  Ég á fjögur börn og þrjú barnabörn og hef reynt að sinna þeim og vera samvistum við þau eftir föngum. Ég hef ekki stundað veiði eða golf en bregð mér af og til á skíði.  Ég hef hins vegar reynt að halda mér við og spila badminton í hópi frískra  karla á öllum aldri að vetrinum og stundfum kvenna.  Ég fer flestra minna ferða innanbæjar á reiðhjóli árið um kring í flestum veðrum.  Ég hef ánægju af ferðalögum og vona að ég geti gefið mér meiri tíma í þau þegar um hægist í störfum mínum. Ég er mikill fréttafíkill og leitast við að fylgjast vel með því helsta sem er að gerast í stjórnmálum, atvinnulífi og flestu því sem getur haft áhrif til góðs eða ills í heimi hér, innanlands sem utan, og eyði oft drjúgum tíma í lestur blaða og tímarita sem um þetta fjalla.

Þó er einn málaflokkur sem ég hef haft sérstakan áhuga á og er það samgöngumálin hér innanlands, ekki síst á Vestfjörðum og stjórnsýslan í kring um þau. Þar er af mörgu að taka og hef ég leitast við að hafa áhrif og benda á þar sem ég tel að hlutir megi betur fara.  Hlutaðist ég til fyrir rúmum 20 árum um að félagið Leið ehf. var stofnað og hluthafar yfir 30, flestir raunar smáir,  sem beitt hefur sér fyrir nokkrum málum.  Má þar nefna undirbúning að gerð vegar um Þröskulda milli Stranda og Dala og uppsetningu búnaðar til útsendinga útvarps í Bolungarvíkurgöngum, sem kenndi mér að stjórnsýslan getur stundum verið einkennileg í kring um samgöngumálin.

Þá stofnaði ég fyrir nokkrum árum Samgöngufélagið, www.samgongur.is, sem ég nota sem vettvang til að koma á framfæri ýmsu sem mér liggur á hjarta og standa að könnunum og skoðanaskiptum um hin ýmsu mál, sum umdeild eins og fjarðaþveranir á nokkrum stöðum.  Má þar nefna Vatnsfjörð í Barðastrandarsýslu, Grunnafjörð norðan Akraness og svo vildi ég sjá kosti þess að þvera Hrútafjörð skoðaða af alvöru, en sú leið stytti leiðina milli Vestfjarða og Norðurlands um 30 km.  Loks skal nefnt umdeilt mál sem er gerð vegar svonefndrar Húnavallaleiðar og Vindheimaleiðar sem stytti leiðina um Hringveginn um 14 km og 6 km.  Sjá hér áður óbirta könnun með myndböndum sem sýna vegi þessar leiðir og ekki hefur verið formlega kynnt og ég vona að þeir sem skoði hafi helst fyrir sig í bili !    

Af sjálfum mér er það helst að segja að faðir minn hét Guðmundar Jónasson, frá Flatey á Skjálfanda.  Hann lést þegar ég var fjögurra ára og yngri bróðir minn nýfæddur. Móðir min Bergljót Líndal (sem ég ákvað fyrir þremur árum að leiða B-ið í nafni mínu af) fluttist þá með okkur syni sína á heimili af míns og ömmu á Bergstaðastræti 76 í Reykjavík, þeirra Thedórs og Þórhildar Líndal.  Þar bjó þá einnig móðurbróðir minn, Sigurður Líndal, lengst af lagaprófessor líkt og móðurafi minn. Ég gekk í nokkra barnaskóla, varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og fór þaðna í nám við lagadeild. 

Fljótlega eftir að ég fluttist vestur lágu leiðir okkar eiginkonu minnar, , Sólrúnar Geirsdóttir, nú kennara við Menntaskolann á Ísafirði, saman og eigum við þrjú börn, Halldóru, Þórhildi Bergljótu og Einar Geir og nýfætt barnabarn, Jónas Ægi Halldóruson.  Fyrir átti ég eina dóttur, Helgu Thedóru og á hún tvö börn.

DEILA