Vesturbyggð: lækka vatnsgjald og fráveitugjald

Leikskólinn Araklettur við Strandgötu á Patreksfirði.

Bæjarráð Vesturbyggðar leggur til við seinni umræðu um fjárhagsáætlun næsta árs að lækka bæði vatnsgjald og fráveitugjald fyrir almennt húsnæði og það fari úr 0,28% af fasteignamati eins og lagt var til í fyrri umræðu og verði 0,23%.

Gjaldskrár sem snúa að barnafjölskyldum, eldri borgurum og öryrkjum hækki um 2,8%, aðrar gjaldskrárhækkanir verða 4,5%. Leikskólagjöld lækka um 10% samkvæmt tillögunni en teknir verði upp skráningadagar. Fæðisgjald í leikskólum haldist óbreytt milli ára.

Seinni umræðan fer fram í bæjarstjórn í dag, miðvikudaginn 11. desember nk.

Þá verða einnig afgreiddar breytingartillögur um gjaldskrá leikskólanna.

Þar leggur bæjarráðið til að teknir verði upp svo kallaðir skráningardagar í leikskólum í kringum jól, páska og vetrarfrí í skólum. Á árinu 2025 verði þeir alls 12.

Breytingar verði gerðar á gjaldskrá leikskóla þannig að dvalargjald verði eitt í stað klukkustundagjalds. Mánaðargjald í leikskóla verði lækkað um 10% árið 2025. Matargjald haldist óbreytt milli ára.

Opnunartími leikskóla helst óbreyttur en almennur dvalartími verði til kl. 14 á föstudögum. Hægt verði að skrá börn í lengri tíma gegn gjaldi.

Afsláttur af leikskólagjöldum verði tekjutengdur en í stað þess verði tekinn út afsláttur vegna einstæðra foreldra og námsmanna.

Fyrriumræða um fjárhagsáætlunina fór fram 20.nóvember sl. í bæjarstjórninni.

Þar voru lagðar til eftirfarandi gjaldastuðlar fyrir næsta ár:

Fasteignaskattur A-flokkur 0,55%
Fasteignaskattur B-flokkur 1,32%
Fasteignaskattur C-flokkur 1,65%
Vatnsgjald íbúðarhúsnæði 0,28%
Vatnsgjald annað húsnæði 0,50%
Fráveitugjald íbúðarhúsnæði 0,28%
Fráveitugjald annað húsnæði 0,50%
Lóðaleiga íbúðarhúsnæði 1,00%
Lóðaleiga annað húsnæði 3,75%

DEILA